145. löggjafarþing — 23. fundur,  20. okt. 2015.

sjúkratryggingar og lyfjalög.

228. mál
[17:45]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Eins og ég kom inn á áðan þá fjallaði velferðarnefnd um þetta mál þegar utanríkismálanefnd sendi málið til okkar þegar við vorum að fjalla um þingsályktunartillögu sem heimilaði innleiðingu á þessari tilskipun. Um það voru deildar meiningar og kannski var það ekki síst óvissan sem gerði okkur erfitt fyrir. Þessi tilskipun kemur auðvitað til vegna þess að það eru mörg ríki í Evrópu sem eiga landamæri hvert að öðru og þó að fólk búi í Frakklandi er kannski styttra yfir á gott sjúkrahús í Belgíu en í Frakklandi, það getur verið með ýmsu móti.

Það sem ég hef áhyggjur af er að við erum með heilbrigðiskerfi þar sem við stjórnum ekki einu sinni sjúklingaflæði. Okkur hefur ekki tekist að koma stjórn á heilbrigðiskerfið. Við erum með undirfjármagnaða heilsugæslu og ég ætla enn og aftur að nota tækifærið og lýsa yfir ánægju með fjárveitingar til sálfræðiþjónustu þar í fjárlagafrumvarpinu en við þurfum að ganga miklu lengra. Í velferðarnefnd var sagt um daginn að það vantaði allt að 80 heilsugæslulækna til að heilsugæslan sinnti í raun hlutverki sínu. Svo vantar heilsugæsluhjúkrunarfræðinga, næringarfræðinga og sálfræðinga og fleiri til að koma á almennilegri teymisvinnu. Þetta er heilsugæslan, hún er vanfjármögnuð. Og þegar Boston Consulting kom hingað til að taka út heilbrigðiskerfið rak þá í rogastans að sjá að hér er engin hliðgæsla. Hér getur fólk pantað tíma hjá hvaða lækni sem er og farið í mjög dýra þjónustu án nokkurra takmarkana. Svona frítt flæði tíðkast nánast ekki í neinu öðru ríki. Síðan erum við með Landspítalann sem er í miklum vanda, rekstrarvanda og mikilli viðhaldsþörf vegna niðurskurðar undanfarins áratugar og vegna fjölgunar þjóðarinnar. En svo erum við með sjálfstætt starfandi sérgreinalækna sem opna bara þjónustu úti í bæ og byrja að afgreiða sjúklinga og fá peninga í samræmi við samning.

Ég hef verulegar áhyggjur af því að þrátt fyrir að við virðumst ekki geta tekið stjórn á eigin heilbrigðiskerfi, haft manndóm í okkur til þess — ég vildi að ég gæti sagt að þetta væri bara vandi núverandi ríkisstjórnar en ég kemst nú ekki upp með það, þetta er langtímaþróun, kerfið hefur verið í sjálfstæðum vexti og ekki sjálfbærum vexti — eigi nú að heimila fólki, án afmarkana um tímalengd á biðlistum og slíkt, að fara til útlanda og leita sér læknismeðferðar. Við vitum það alveg að þeir sem eru veikastir og þurfa mest á þjónustu að halda eru yfirleitt fólk sem hefur minni tekjur, minni fjármuni milli handanna, það er almennt þannig. Það er ákveðin hætta við núverandi skilyrði að þeir efnameiri og heilbrigðari geti sótt sér heilbrigðisþjónustu erlendis sem verður þá að sjálfsögðu greidd úr ríkissjóði og þeim fjármunum er þannig forgangsraðað fram yfir að setja fjármuni í heilsugæsluna, Landspítala, Sjúkrahúsið á Akureyri sem og allar heilbrigðisstofnanirnar hringinn í kringum landið.

Ég ætla ekki að fullyrða að þessar áhyggjur mínar séu óvefengjanlegar en þetta er hluti af því sem við þurfum að fara yfir í nefndinni og ég held að eitt af okkur verkefnum verði náttúrlega að fá eitthvert mat landlæknisembættisins á því hvaða hættur þetta kunni að hafa í för með sér. Eflaust fylgir þessu líka skriffinnska. Ráðherra vísar hér í önnur ríki sem hafa farið þessa leið og þetta hafi reynst farsælt fyrirkomulag og ég ætla ekki að vefengja það og draga í efa en áhyggjur mínar lúta að því að fjárveitingar í íslensku heilbrigðiskerfi séu ekki nægilega markvissar og það sé ekki alltaf þörfin sem stjórni fjárveitingunum heldur framboðið á sérgreinalæknum eða eitthvað annað stjórni því og nú verði hér kominn enn einn útgjaldaliðurinn þar sem Alþingi getur ekki takmarkað flæðið nema almannahagsmunir liggi við — ég veit ekki hvað það þarf að vera alvarlegt ástand — og hér sé kominn enn einn kraninn út úr hinu opinbera íslenska heilbrigðiskerfi. Kannski er ég svona bölsýn en ég hef áhyggjur af stöðunni í íslensku heilbrigðiskerfi og ég held að það hafi fleiri en ég. Við þurfum að standa varðstöðu um heilbrigðiskerfi okkar, byggja það upp og efla á þeim stöðum þar sem það er hagkvæmast og kemur sér best fyrir ekki bara ríkissjóð heldur fólkið, okkur sem nýtum heilbrigðisþjónustuna og það er með þeim augum sem ég mun skoða þetta mál.