145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

störf þingsins.

[15:05]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Í morgun afhenti rithöfundurinn Illugi Jökulsson forstjóra Útlendingastofnunar undirskriftir 10 þúsund Íslendinga þar sem skorað er á stjórnvöld og Útlendingastofnun að leyfa albanskri fjölskyldu að setjast að hér á landi, henni verði ekki vísað á brott. Ýmsar brottvísanir flóttafólks hafa undanfarið misboðið réttlætiskennd margra og minna okkur á að mannúðarsjónarmið verða og eiga að vera í öndvegi þegar túlkaður er lagarammi sá sem Útlendingastofnun hefur og hafa margir haldið því fram með góðum rökum að stofnunin túlki ramma sinn allt of þröngt.

Ef það er rétt túlkun eins og við höfum séð núna undanfarið þar sem er verið að vísa á brott fjölskyldum, barnafjölskyldum, allslausu flóttafólki sem hingað hefur komið, slegið niður tjöldum sínum, fest rætur og vill hér vera, þá er sá rammi og sú lagaumgjörð einfaldlega röng. Það er ástæða til að skora á hv. allsherjarnefnd og innanríkisráðherra að taka það til tafarlausrar endurskoðunar, ekki síst ef það er rétt hjá Útlendingastofnun að henni sé þessi þröngi stakkur sniðinn og hún hafi í raun ekki önnur úrræði en að vísa þess fólki á brott þegar við blasir að mannúðarsjónarmiðum og réttlætiskennd margra er alvarlega misboðið með brottvísunum þessum.

Undirskriftir þessara 10 þúsund Íslendinga undir áskorun til stjórnvalda og Útlendingastofnunar tala sínu máli, enda varð þessi undirskriftalisti til á örfáum dögum.

Ég vil nota þetta tækifæri til að skora á Alþingi og allsherjarnefnd og ráðherra málaflokksins að beita sér mjög afdráttarlaust og hratt í þessum málum og vinda bráðan bug að því að tryggja að þessar fjölskyldur og þeir sem hingað eru ókomnar í þessum sömu erindum geti fengið hér skjól og heimili til langrar framtíðar.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna