145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

störf þingsins.

[15:25]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegur forseti. Ég vil hvetja hv. þingmann og aðra til að kynna sér svar sem ég fékk við fyrirspurn minni um hvað við tökum upp mikið af gerðum í gegnum EES-samninginn af þeim lagagerðum sem eru gerðar á vegum Evrópusambandsins. Ástæðan fyrir því að ég vil vekja athygli hv. þingmanna og annarra á þessu er að við heyrum mjög reglulega að við tökum meira og minna allt upp af þeim lögum, reglugerðum og tilskipunum sem koma frá Evrópusambandinu. Það hefur hvað eftir annað verið talað um að það hlutfall sé 80%. Auðvitað hefur þetta verið hrakið margoft en alltaf kemur sú staðhæfing upp aftur. En núna liggur það alveg fyrir með þingskjali sem svar við þessari fyrirspurn minni að hlutfallið er kannski í kringum 10% eða eitthvað slíkt. Það er mjög mikilvægt að við höfum það í huga þegar við erum að ræða þessi mál.

Það væri líka gott að við hefðum það í huga að vegna þess að við erum ekki í tollabandalagi, við erum fríverslunarsamtök, höfum við frelsi til að auka viðskiptafrelsi hér á landi. Það hefur þessi hæstv. ríkisstjórn gert meðal annars með því að taka ákvörðun um að fella niður tolla á um 1.700 vörum, sem við gætum ekki gert ef við værum í Evrópusambandinu. Í ofanálag, af því að það fer ekki hátt einhverra hluta vegna, hefur það verið tekið út hvaða áhrif það hefði á verðlag okkar á ýmsum vörum ef við gengjum í Evrópusambandið. Það mundi þýða tollahækkun á mjög mörgum vörum, sérstaklega frá stóru viðskiptalandi eins og Bandaríkjunum en mörg önnur mætti nefna. Svo höfum við að sjálfsögðu frelsi til að gera fríverslunarsamninga við önnur ríki, eins og við höfum gert við bæði Færeyjar og Kína.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna