145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

störf þingsins.

[15:29]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Undirmönnun á sjúkrahúsi jafngildir undirumönnun á sjúkrahúsi, það gefur augaleið. Enginn vill raunverulega að slíkt viðgangist og ég fullyrði að svo sé. Það vill enginn að þetta viðgangist. Það er helst að það vefjist fyrir fólki, og þá því sem ekki þekkir málin af eigin raun, að vita hverju það á að trúa þegar staðhæft er að sjúkrastofnanir séu undirmannaðar. Í yfirstandandi verkfallsdeilu sjúkraliða kemur veruleikinn hins vegar svo berlega í ljós að ekki verður vikist undan því að viðurkenna vandann. Auðvitað getur skipt sköpum, jafnvel er um líf og dauða að tefla, þegar læknir er ekki til staðar og sjúklingur kemst ekki í nauðsynlega aðgerð af þeim sökum. Í þeirri lífkeðju er oftar en ekki margt fólk og margar starfsstéttir auk lækna, hjúkrunarfræðingar, lífeindafræðingar, geislafræðingar og fleiri, að ógleymdum sjúkraliðum, sem mynda þá keðju. Og það eru sjúkraliðar sem nú eru í verkfallsátökum. Aðgerð er framkvæmd, dagurinn líður, svo kemur kvöld og síðan nótt, einnig þá þarf hjúkrunar- og umönnunarfólkið að vera til staðar.

Birna Ólafsdóttir, starfskona Sjúkraliðafélags Íslands, með 30 ára reynslu úr kjarabaráttu og af verkfallsátökum, segir að í þeim átökum sem nú standa yfir hafi birst sér nýr veruleiki. Í verkföllum fyrr á tíð hafi verið gefnar undanþágur til vinnu til að tryggja lágmarksöryggi. Nú væri hins vegar unnið við lágmarksöryggiskröfur á degi hverjum án þess að til verkfalls komi. Þannig væri það á ýmsum deildum Landspítalans, að þegar einn starfsmann vantaði á vakt væri heilsu og líðan sjúklinga ógnað. Hún segir líka að það sé ekki nóg að starfsfólkið sé of fátt vegna þess að deildum hefur verið lokað heldur er veikara fólk á sjúkrahúsinu en áður var og starfsstéttirnar, þar á meðal sjúkraliðar, eru einnig veikari fyrir í orðsins (Forseti hringir.) fyllstu merkingu. Hún biður okkur um að horfast í augu við þennan veruleika.

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs til að taka undir þennan málflutning, varnaðarorð Sjúkraliðafélagsins (Forseti hringir.) verður að taka alvarlega í þessum sal. Ég horfi þá til þess að ríkið (Forseti hringir.) verður að leysa þá kjaradeilu sem nú stendur yfir strax og við verðum líka að taka þessi skilaboð inn í fjárlagaumræðuna fyrir komandi ár. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)


Efnisorð er vísa í ræðuna