145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

störf þingsins.

[15:35]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegur forseti. Allt frá því gjaldeyrishöftin voru sett á hér á landi haustið 2008 hefur linnulaust verið rætt um og unnið að því að afnema þau, í það minnsta losa um þau. Það hefur margt óábyrgt verið sagt í þeim málum hér í þessum sal á þessu tímabili. Það má rifja upp ótal ummæli talsmanna núverandi stjórnarflokka um að þetta mætti nú gera á einni dagstund jafnvel, nokkrum dögum, einhverjum vikum, það væri bara viljann sem vantaði á síðasta kjörtímabili. Svo reyndist veruleikinn annar þegar á hólminn var komið.

Á undanförnum árum er búið að vinna gríðarmikið starf sem miðar fyrst og fremst að því að ná utan um umfang þessa máls og meta áhrifin af þeim leiðum sem mögulegar hafa verið uppi á borðum til að afnema eða losa um höftin. Nú þegar vonandi fer að styttast í annan endann og hægt verður að fara að ljúka einhverjum af þessum málum hið minnsta þá er afar mikilvægt að það sé vel að þessu staðið og þeim sé lokið með sómasamlegum hætti.

Í fyrsta lagi finnst mér óboðlegt með öllu að þessi mál séu afgreidd á bak við luktar dyr. Það er algjörlega óboðlegt fyrir Alþingi og almenning í landinu að þessi mál, sem eru þau langstærstu sem þessi þjóð hefur verið að glíma við á undanförnum árum og við munum vonandi ekki fá annað eins í hausinn á næstu áratugum hið minnsta, sé verið að leiða til lykta og afgreiða bak við luktar dyr. Þau eiga heima hér inni á Alþingi.

Í öðru lagi er vert að hafa áhyggjur af því að verið sé að semja verulega af sér fyrir hönd Íslands. Það er óútskýrður munur upp á hundruð milljarða króna á þeirri leið sem er verið að kynna í dag og skarta leiðinni sem hefur sömuleiðis verið kynnt.

Í þriðja lagi og ekki síst þá er full ástæða til að hafa áhyggjur af viðbrögðum formanna stjórnarflokkanna við þeim atburðum sem eru að gerast þessa daga sem fyrst og fremst snúa að (Forseti hringir.) því að selja í þessu tilfelli Íslandsbanka, koma honum í lóg sem fyrst áður en þeir fá hann. (Forseti hringir.) Þá vil ég minna á það að hér liggur fyrir samþykkt (Forseti hringir.) á Alþingi um rannsókn á einkavæðingu bankanna (Forseti hringir.) sem sömu flokkar stóðu að fyrir rúmum áratug. Ég krefst þess að þeirri rannsókn (Forseti hringir.) ljúki áður en lagt verður nú af stað með nýja. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)


Efnisorð er vísa í ræðuna