145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

beiðni um umræðu um afnám verðtryggingar.

[15:39]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég tek sannarlega undir orð hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar og hvatningu til forseta Alþingis um að á einhvern hátt verði forsætisráðherra skikkaður til að koma hingað í sérstaka umræðu sem hefur beðið núna í allt að heilt ár.

Virðulegi forseti. Ég hef verið svolítið hrifinn af þessum dagskrárlið sem heitir störf þingsins þar sem þingmenn geta komið og rætt málin, en ég verð að segja alveg eins og er að það er ekki hægt að una við það lengur hvernig nokkrir þingmenn Framsóknarflokksins koma hér fram með fullyrðingar um afnám verðtryggingar og annað og eru svo hlaupnir út úr salnum. Þeir gefa okkur aldrei færi á því að ræða við þá um þessi mál. Hv. þm. Karl Garðarsson, hv. þm. Elsa Lára Arnardóttir, hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson, að ég tali nú ekki um ræðu hv. þm. Silju Daggar Gunnarsdóttur í gær (Forseti hringir.) um þetta mál.

Virðulegi forseti. Þetta er ekki hægt. Það er ekki Alþingi samboðið að forsætisráðherra geti hunsað löggjafarþingið mánuð eftir mánuð (Forseti hringir.) og jafnvel ár eftir ár og ekki rætt þetta mál sem framsóknarmenn koma svo hér með (Forseti hringir.) skrifaða stíla um og gagnrýna hæstv. fjármálaráðherra fyrir að koma ekki með málið til þingsins.

Hvað hyggst hæstv. forseti gera í þessu máli? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)