145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

beiðni um umræðu um afnám verðtryggingar.

[15:42]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Það er orðið áhugavert að fylgjast með samtali stjórnarflokkanna þegar rætt er um afnám verðtryggingar því samtalið á sér ekki bara stað bak við luktar dyr heldur á það sér líka stað með skeytasendingum hér í þingsal.

Afnám verðtryggingar var annað af tveimur stærstu loforðum Framsóknarflokksins í kosningabaráttunni og þetta átti að vera bæði lítið mál og fljótlegt og alveg sérlega einfalt. Formaður Framsóknarflokksins sem lengi hefur verið á flótta undan Alþingi vill ekki ræða málið í þinginu, en nú hefur orðið ný vending í málinu þegar hver þingmaður Framsóknarflokksins á fætur öðrum kemur fram með þá stjórnmálaskýringu að verkefnið afnám verðtryggingar sé að mati flokksins í höndum hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktssonar. Þannig að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hæstv. forsætisráðherra, er ekki bara á flótta undan Alþingi, heldur er kominn nýr kafli í þessari sögu. Hann skellir skuldinni af eigin vesaldómi á Sjálfstæðisflokkinn.