145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

beiðni um umræðu um afnám verðtryggingar.

[15:46]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hlýddi á skýringar forseta á því hvers vegna forsætisráðherra kæmi ekki hingað og ræddi verðtrygginguna. Jú, málið væri ekki á hans borði heldur á borði fjármála- og efnahagsráðherra. 16. ágúst 2013 var málið aldeilis á borði forsætisráðherra þegar hann skipaði sérfræðingahóp um verðtryggingu. Í janúar 2014 var málið aldeilis á borði forsætisráðherra þegar hann gaf út 70 síðna skýrslu þessa sérfræðingahóps um verðtryggingu. Er málið bara á borði forsætisráðherra þegar honum hentar? Svo þegar málið verður snúið og erfitt og hann gæti þurft að svara einhverjum spurningum þingmanna er það allt í einu á borði fjármála- og efnahagsráðherra.

70 síðna skýrsla var gefin út af forsætisráðuneytinu í janúar 2014. Forsætisráðherra á að koma hingað og ræða við okkur um verðtrygginguna, vegna þess að hann tók málið inn á sitt borð þegar þessi ríkisstjórn fór af stað. (Forseti hringir.) Það er hann sem á að fylgja málinu eftir, (Forseti hringir.) en ekki vera bleyða og henda þessu í fangið á samstarfsflokknum (Forseti hringir.) þegar kartaflan er orðin of heit fyrir hann.