145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

beiðni um umræðu um afnám verðtryggingar.

[15:47]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er í rauninni mjög alvarlegt fyrir þingið, fyrir þingræðið í landinu með þingbundna ríkisstjórn, ef forsætisráðherra kemst upp með þá hegðun sem hann ástundar hér, að hunsa óskir um að koma og standa fyrir máli ríkisstjórnarinnar eða flokks síns á Alþingi. Forsætisráðherra er forsætisráðherra, eða var það síðast þegar ég vissi, og þegar um er að ræða mál sem varðar jafnvel mörg ráðuneyti, samanber það að þrír ráðherrar héldu skrautfund í morgun um húsnæðismál, þá er eðlilegt að beina því að forsætisráðherra, jafnvel þótt einhver afmarkaður þáttur máls, verðtrygging í fjárlagaskilningi eða löggjafar um fjármálamarkaðar, sé á verksviði fjármálaráðherra.

Forsætisráðherra er jafnframt formaður Framsóknarflokksins, flokksins sem lýsti því yfir að verðtrygging yrði afnumin óðar og hann fengi völdin í landinu. Maður fer að velta því fyrir sér eftir að hafa hlustað á málflutning þingmanna Framsóknarflokksins hvort þeir líti svo á að það séu tvær ríkisstjórnir í landinu, ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og ríkisstjórn Framsóknarflokksins. (Forseti hringir.) Og ríkisstjórn Framsóknarflokksins, undir forustu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, hefur falið ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar (Forseti hringir.) að afnema verðtryggingu. Hann stendur sig ekki í því og þar með er Framsókn stikkfrí. Ja, heyr á endemi.