145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

beiðni um umræðu um afnám verðtryggingar.

[15:50]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mér þykir hálfkaldhæðnislegt eða alkaldhæðnislegt að hér sé kvartað undan því að menn fari í efnislega umræðu um verðtrygginguna undir liðnum um fundarstjórn forseta þegar menn kalla eftir efnislegri umræðu um verðtrygginguna, búið er að kalla eftir henni síðan í febrúar. (Gripið fram í.) Það að spyrja að leikslokum gerir lítið úr loforðum Framsóknarflokksins. Talandi um að gera lítið úr, maður er orðinn vanur því að koma í pontu og segja að hæstv. forsætisráðherra geri lítið úr þinginu. Að þessu sinni finnst mér hann fyrst og fremst gera lítið úr sjálfum sér. Það að hann meðhöndli málið á þennan hátt sýnir svo ekki verður um villst að hann þorir ekki að tala um þetta, sem ég skil mætavel, ég mundi ekki þora að tala um þetta ef ég hefði farið út í þau loforð sem hann gaf. Ekki mundi ég þora að standa hér og reyna að verja þau. Þess vegna vill hann ekki standa hér og tala um þetta efnislega. Ef við eigum ekki að tala um þetta hér, virðulegi forseti, undir liðnum um fundarstjórn forseta, hvenær eigum við þá að tala um þetta? Jú, í sérstökum umræðum sem við erum að kalla eftir. Hvar er hinn pólitíski ómöguleiki núna, meðan ég man, virðulegi forseti, ef hæstv. fjármálaráðherra á að sjá um málið?