145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

beiðni um umræðu um afnám verðtryggingar.

[16:03]
Horfa

Karl Garðarsson (F):

Virðulegur forseti. Ég held að það gefist alveg nægur tími til að ræða um verðtryggingu hér á næstu mánuðum og menn þurfa ekki að hafa neinar áhyggjur af því að þeir fái ekki tækifæri til þess. Það er alveg ljóst að fulltrúar ríkisstjórnarinnar munu verða hér til þess að ræða það mál við hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar.

Menn tala um svikin kosningaloforð Framsóknarflokksins. Ég ætla að minna á það að kjörtímabilið er rétt rúmlega hálfnað. (Gripið fram í.) Við skulum ekki tala um svikin [Frammíköll í þingsal.] kosningaloforð fyrr en kjörtímabilið er búið. Við skulum ræða um — munið þið eftir skjaldborg heimilanna? [Frammíköll í þingsal.] Eitt helsta afrek síðustu ríkisstjórnar, skjaldborg heimilanna, stóra mál síðustu ríkisstjórnar sem var svikið. (Forseti hringir.) Það var svikið frá A til Ö. Það er bara staðreynd.

(Forseti (ÞorS): Hv. 8. þm. Reykv. s. hefur orðið.)

Kjörtímabilið er hálfnað. Framsóknarflokkurinn hefur ekki svikið nein kosningaloforð, það liggur alveg fyrir. (Gripið fram í.) Fólk hefur nægan tíma til að ræða um þetta mál á næstu mánuðum. (Forseti hringir.) Og að vera með þennan sirkus sem hér er í gangi er alveg með ólíkindum.