145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

beiðni um umræðu um afnám verðtryggingar.

[16:11]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Ekki hvarflar að mér að gera athugasemdir við það að hér sé óskað eftir sérstakri umræðu um þetta mikilvæga mál, verðtrygginguna, en miðað við orðfæri og ummæli sem hér hafa fallið sýnist mér heldur ekki vanþörf á því. Hér er talað um afnám verðtryggingar og af því að hér er haldið fram og borið á hæstv. fjármálaráðherra að hann sé sérstaklega á móti afnámi verðtryggingar þá finnst mér rétt að halda því til haga að verðtryggingin er ekki eitthvert helsi sem menn eru bundnir í og hægt að skipta mönnum í hópa hvort þeir vilji viðhalda því helsi eða ekki. Ég minni á (Gripið fram í.) að hér standa til boða óverðtryggð lán, óverðtryggð neytendalán og síðast þegar ég frétti af gangi mála hjá fjármálafyrirtækjum hvað það varðaði þá var miklu minni eftirspurn eftir óverðtryggðum lánum en verðtryggðum. Hitt er svo annað mál(Forseti hringir.) að það er sjálfsagt að ræða það hvort sé hagstæðari kostur, verðtryggð lán eða óverðtryggð lán, en umræðan snýst ekki um afnám verðtryggingarinnar (Forseti hringir.) vegna þess að þeir sem hér hafa talað, margir hverjir í flokki hæstv. forsætisráðherra og þeir sem óska eftir þessari umræðu, eru þó sammála um eitt, þeir vilja banna verðtryggð lán og þeir vilja minnka valfrelsi neytenda (Gripið fram í.)