145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:23]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nú dylst engum að málefni þróunarsamvinnu eru mjög viðkvæmur málaflokkur. Þarna er verið að verja fjármunum til mjög mikilvægra verkefna í fjarlægum löndum. Það skiptir mjög miklu máli að hafa eftirlit með því hvernig þeim fjármunum er varið og það skiptir líka mjög miklu máli að skapa sátt um málaflokkinn. Það má lesa það út úr sögu þessa málaflokks á Íslandi að stjórnmálamenn hafa alltaf reynt að ná sátt þvert á flokka um það hvernig fyrirkomulagi þróunarsamvinnu eigi að vera háttað þar til nú þegar hæstv. utanríkisráðherra leggur þetta frumvarp fram á síðasta þingi og aftur núna, vitandi vits að um þetta ríkir mikið ósætti.

Hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa bent á að rökin fyrir því að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun eru mjög veigalítil. Yfir það er farið í nefndarálit minni hlutans. Mig langar að spyrja hv. formann utanríkismálanefndar, sem hefur beitt sér fyrir samræðustjórnmálum, hvort hún telji það ekki varhugavert skref að setja þennan málaflokk í uppnám með því að afgreiða þetta mál hér á þinginu í bullandi ágreiningi og brjóta þar með blað í því hvernig ákvarðanir hafa verið teknar um þróunarsamvinnu hér á landi hingað til.

Mig langar líka að spyrja þingmanninn hvort hún sé sammála þeirri túlkun ráðuneytisins að skýrsla DAC, sem nýtt er í greinargerð frumvarpsins til að rökstyðja þessa breytingu, rökstyðji það. Ég hef að minnsta kosti lesið þá greinargerð og fæ ekki séð af þeim lestri að þar sé með neinum hætti verið að leggja til þá leið sem hæstv. ráðherra hefur ákveðið að fara hér. Þvert á móti hefur ÞSSÍ fengið mjög góða dóma í öllu ytra mati á sínum störfum, sem skiptir máli þegar um jafn viðkvæman málaflokk er að ræða.

Þetta eru tvær spurningar, herra forseti, sem ég beini til hv. þingmanns.