145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:27]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. DAC mælir ekki með einni leið umfram aðra en kemst hins vegar að þeirri niðurstöðu að reynslan af Íslandi í þessum málaflokki sé mjög jákvæð. Eins og ég kom að í 1. umr. þá er mér það algjörlega óskiljanlegt af hverju er verið að fara í þetta brambolt, leyfi ég mér að segja, án þess að nein sérstök rök séu fyrir því. Það er bara verið að færa til hluti án þess að nein rök mæli með því. Reynslan er góð og ég hef verulegar áhyggjur af því, og segi það við hv. þingmann hér, að þó hv. þingmenn séu almennt reiðubúnir til að reyna að ná sáttum í málum þá hefur lítið verið gert til að ná sátt um þetta mál.

Það er ekki bara þetta mál sem er undir heldur líka sú staðreynd að áætlun Íslands, um framlög til þróunarsamvinnu, hefur verið í uppnámi frá því núverandi ríkisstjórn tók við. Það hefur verið skorið niður, forgangsraðað aftur (Forseti hringir.) í röðina og það er ekki bara á síðasta þingi heldur gerist það aftur nú í fjárlagafrumvarpi að sú áætlun sem hæstv. ráðherra lagði fram stenst ekki einu sinni. Auðvitað er málaflokkurinn í uppnámi. Mér finnst það vera verkefni fyrir formann utanríkismálanefndar, hv. þingmann, að reyna að leita leiða til finna sátt í þessum viðkvæma málaflokki.