145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:30]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. formanni utanríkismálanefndar fyrir alveg prýðilega framsögu miðað við efni og aðstæður. Hún er sannarlega ekki öfundsverð af því hlutskipti sínu að þurfa að færa fram mál sem ég tel að að minnsta kosti obbi þingmanna Sjálfstæðisflokksins hafi litla sannfæringu fyrir.

Þeir utanríkisráðherrar sem hafa starfað í utanríkisráðuneytinu hafa allir strax á upphafsdögum sínum fengið sömu meðferð hjá örfáum mönnum í kjarna embættismanna sem allir hafa gengi á fund þeirra og lagt þetta til. Þeir sem hafa verið blautir á bak við eyrun þeir hafa stundum látið ginnast af þessu, komið með þetta mál hér til þingsins og verið jafn harðan sendir til baka eins og gerðist t.d. 2008. Sumir skelltu skollaeyrum við eins og sá sem hér stendur. Einn hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra, Davíð Oddsson, setti málið í skoðun og hann fékk til þeirrar skoðunar sinn ágæta aðstoðarmann, núverandi hæstv. menntamálaráðherra Illuga Gunnarsson. Hæstv. menntamálaráðherra skilaði tiltekinni niðurstöðu. Hún var að yfirlögðu ráði. Hún var sú sem Davíð Oddsson lagði fyrir sína embættismenn að framfylgja. Í henni fólst að breyta skipulaginu, en fara í þveröfuga átt og flytja öll verkefni á sviði þróunarsamvinnu innan utanríkisráðuneytisins til þeirrar stofnunar. Herra forseti. Það var einn af þremur valkostum sem Þórir Guðmundsson lagði upp með.

Mig langar til þess að spyrja hv. formann utanríkismálanefndar hvort hún telji ekki, af því hún er að tala um sáttir í málinu, einnar messu virði að skoða það fyrirkomulag sem Davíð Oddsson og Illugi Gunnarsson, tveir ágætir leiðtogar lífs margra, lögðu til á sínum tíma. Aldrei þessu vant þá er ég þessum tveimur heiðursmönnum algjörlega sammála.