145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:35]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit nú ekki hvernig hægt er að greiða leið til sátta betur en með því að leggja til að allir fundarmenn fallist á tillögu fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins. Látum það vera. Ég ætla ekki að deila við hv. þingmann um söguna. En það sem hún vísar til eins og séu einhver leyndarmál liggur hins vegar fyrir í opinberum gögnum og var nýleg birt á vefsíðu tiltekinnar opinberrar stofnunar, þessi saga öll sömul er rakin þar.

Hv. þingmaður sagði áðan, og var það nú ekki það sem ég var að spyrja hana um, að við mundum efalítið deila um það í þessari umræðu hvort flutningur á stofnuninni í utanríkisráðuneytið mundi leysa þau vandamál sem því eru ætluð. En hér stendur hnífurinn í kúnni. Hv. þingmaður talar mjög skýrt. Hún á í engum erfiðleikum með að flytja sitt mál, en hún sagði okkur ekki frá því hver vandamálin væru. Hver eru vandamálin sem á að leysa?

Herra forseti. Er það sem hér er um að ræða ekki einfaldlega það sem hv. þm. Katrín Jakobsdóttir orðaði svo snilldarlega í fyrra: Hvers vegna að laga það sem er í góðu lagi?