145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:46]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Hv. formaður utanríkismálanefndar fer ekki vill vegar þegar hún leiðir getum að því að ég og margir í utanríkismálanefnd — allir þeir sem eiga þar sæti af hálfu stjórnarandstöðunnar — séu heldur óglaðir með þetta mál. Satt að segja hefði ég mikið viljað gefa til þess að okkur hefði auðnast að ná sátt um aðra niðurstöðu. Ég tel að ef ég hefði til dæmis fengið að ráða því til lykta, með hv. formanni utanríkismálanefndar, með hvaða hætti leiðir til sátta yrðu kannaðar þá hefði verið hægt að finna leið sem obbi þingheims hefði getað orðið sáttur við.

Ég tók eftir því, þegar umræða stóð hér við 1. umr. þessa máls, og alla þá 22 tíma sem menn notuðu til þess að ræða það í fyrra og á þessum vetri, að þeir sem tóku til máls af hálfu Sjálfstæðisflokksins, ýmist í ræðum ellegar í andsvörum, virtust heldur ekki vera mjög glaðir með þetta mál. Ég tek líka eftir því að hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason, sem hafði mjög einbeittar skoðanir í þeim umræðum, er með fyrirvara á málinu og ég hlakka til að sjá það með hvaða hætti hv. þingmaður túlkar þann fyrirvara. Það var sá hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason sem fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins sagði hér við 1. umr.: Menn eiga ekki að vera að skakast í stofnunum. Hann bætti því líka við að menn ættu ekki að vera að breyta stofnunum sem hafa gengið vel. Það er mergurinn málsins með þessa stofnun að hún hefur gengið vel.

Það hefur engin sannfæring komið fram, af hálfu nokkurs manns í stjórnarliðinu, fyrir þessu máli. Ég tel ekki það nefndarálit sem hér var flutt framsaga fyrir og er þá ekki að ýja með nokkrum hætti að því að hv. formaður utanríkismálanefndar sé ekki að tala af sannfæringu sinni. Ég tel hins vegar að hún sé þeirrar skoðunar að það skipti litlu máli hvorum megin hryggjar þetta stykki liggi. Þannig hefur mér afstaða Sjálfstæðisflokksins virst vera í málinu.

Hitt er algjörlega ljóst að það væri hins vegar mjög erfitt að ná sátt við ríkisstjórnina í málinu þó að við þingmenn gætum auðveldlega náð henni hér á hinu háa Alþingi. Ástæðan er vitaskuld sú að hæstv. utanríkisráðherra hefur ekkert annað mál fram að færa en þetta. Þetta er eina málið sem hæstv. utanríkisráðherra kemur með til þings og það er því allt í einu orðið þungamiðja utanríkisstefnunnar. Það má þá leiða getum að því hvað veldur því að hæstv. ráðherra vill fara þessa leið. Hann átti við sama vandamál að glíma og hv. formaður utanríkismálanefndar þegar hann var spurður að því hvaða vandamál þessi breyting ætti að laga. Þá vafðist honum tunga um höfuð og tunga um tönn, líkt og hv. formaður utanríkismálanefndar hér í andsvörum áðan. Hann gat ekki upplýst um það. Staðreyndin er einfaldlega sú að engin rök hafa verið færð fyrir því af hverju eigi að leggja Þróunarsamvinnustofnun niður.

Herra forseti. Ég hef setið hér í þessum sölum og staðið hér lengur en ég kannski kæri mig um að rifja upp. Á öllum þeim tíma hefur haddur minn breyst úr því að vera brúnrauður yfir í að vera blágrár, en á öllum þessum tíma hef ég aldrei nokkru sinni staðið andspænis máli sem virðist af hálfu ríkisstjórnarinnar vera jafn tilgangslítið og það sem hér liggur fyrir. Það er bókstaflega ekkert sem rekur til þess að menn ráðist í þennan leiðangur sem felst í því að leggja niður stofnun, sem samkvæmt öllum þeim vitnisburðum sem við höfum fengið í utanríkismálanefnd er ekki hægt annað en að kalla fyrirmyndarstofnun. Þróunarsamvinnustofnun hefur að öllu leyti staðið sig ákaflega vel. Það hefur til dæmis komið fram að hún er stofnun sem hefur, síðan 2008 að ég hygg, haldið sig innan ramma fjárlaga. Ríkisendurskoðandi hefur ekki séð neina ástæðu til að gera nokkrar athugasemdir við hana. Og þær stofnanir sem hefur verið leitað eftir um álit varðandi samstarf við hana hafa sömuleiðis gefið henni mjög góða einkunn.

Ég vísa líka til þess álits sem hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir vísaði hér til áðan, þ.e. úttektar DAC-nefndarinnar. Þar er farið ákaflega lofsamlegum orðum um Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Þar er greint frá því að hún hafi innan sinna vébanda úrvalsstarfskraft. Þar er sérstaklega talað um það að stofnanaramminn, sem við erum hér að breyta, hafi dugað vel og innan hans sé mikil geta til þess að ná og vinna vel að þeim markmiðum sem stofnuninni hafa verið sett. Þá spyr maður sjálfan sig: Hvers vegna er verið að leggja í þennan leiðangur? Ég segi það bara alveg hreinskilnislega: Þetta er í fyrsta skipti sem ég stend hér á Alþingi andspænis máli þar sem ég skil ekki tilganginn. Hin eina skýring sem ég finn er sú að hæstv. ráðherra glæptist á að segja já við þá embættismenn, örfáa, sem vildu með þessum hætti fá aukið vald inn í ráðuneytið. Hann kom með málið inn í þingið. Þar reis upp mikil ófriðarbylgja og hann er einfaldlega að sýna okkur hver það er sem hefur valdið.

Ég vil, herra forseti, leyfa mér að segja að þetta sé geðþóttaákvörðun sem byggist ekki á neinum rökum. Mér hefur að minnsta kosti ekki tekist að koma auga á nein þessara raka.

Það má spyrja, herra forseti: Hvað þarf til þess að menn taki ákvörðun um að leggja heila stofnun niður? Þarf ekki stofnunin að hafa sýnt eitthvað neikvætt af sér? Þarf hún ekki að hafa með einhverjum hætti farið á skjön við þá stefnu sem fagráðherrann hefur? Þarf hún ekki að hafa sýnt það að rekstur hennar er utan þess ramma sem henni er skorinn? Þarf ekki að hafa komið fram að hún er þunglamaleg í rekstri? Hún sé stirð í vöfum? Hún bryddi ekki upp á nýmælum? Þarf ekki að hafa komið fram að stofnunin, með einhverjum hætti, virðist ekki svara þeim kröfum sem til hennar eru gerðar af framkvæmdarvaldinu og af þeim fagráðherra sem yfir henni er? Jú, ég held að við mundum öll geta verið sammála um það að eitthvað af þessu hlyti að þurfa að vera til staðar til þess að ríkisstjórn léti sér koma til hugar að koma fram með frumvarp af þessu tagi.

Hver var vitnisburður hv. þm. Hönnu Birnu Kristjánsdóttur sem á skömmum tíma innan utanríkismálanefndar hefur þó haft tóm til þess að kynna sér málið? Hv. þingmaður lýsti því yfir í nefndinni að hún hefði farið yfir allar ræður sem fluttar hefðu verið um málið, lesið öll gögn málsins, allar umsagnir — og hver er niðurstaða hennar? Við heyrðum það hér rétt áðan þar sem hv. þingmaður sagði einfaldlega ærlega, aðspurð um það hvernig hún upplifði það hvernig stofnunin væri, að ekki væri hægt að halla orði á stofnunina. Hún sagði: Stofnunin hefur staðið sig vel. Hún er góð. Starfsmennirnir eru faglegir.

Hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir hefur með þessum hætti í reynd tekið undir allt það sem er líka að finna í þróunarsamvinnunefndarúttektinni, DAC-úttektinni svokölluðu. Og ekki bara það. Þegar maður veltir því fyrir sér hvers vegna hæstv. ráðherra er að fara í þennan leiðangur þá birtist manni ansi „skítsofren“ afstaða þegar hann er spurður út í það hvernig honum finnist stofnunin vera. Hæstv. ráðherra hefur nefnilega sagt að hann finni ekkert aðfinnsluvert við stofnunina. Hann hafi ekkert út á hana að setja. Og ekki bara það, heldur segir líka í greinargerð með frumvarpinu, með leyfi forseta:

„ÞSSÍ hefur unnið mjög gott starf á vettvangi þannig að eftir því er tekið …“

Í greinargerðinni segir líka að Þróunarsamvinnustofnun Íslands hafi, með leyfi forseta, „margsannað sig í óháðum úttektum“.

Herra forseti. Hvernig á maður þá að skilja hvers vegna hæstv. ríkisstjórn ætlar með þessum hætti að leggja stofnunina niður? Kann það að vera vegna þess að formaður fjárlaganefndar, hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, sem hér skeiðaði fram hjá rétt í þessu, lýsti því yfir, þegar hennar fyrsta verk sem formaður í fjárlaganefnd var að skera með stórfelldum hætti niður framlög til þróunarsamvinnu, að það væri bara fyrsta vers? Getur það verið að heift hv. þingmanns gagnvart ÞSSÍ, sem margsinnis hefur komið fram, sé að birtast í því að hér er hæstv. utanríkisráðherra, sem bersýnilega er leiksoppur hennar í þessu máli, (Gripið fram í.) að leggja til að stofnunin verði lögð niður? Það er ekki hægt að finna neitt annað en einhverjar slíkar hvatir sem ráða för í þessu máli.

Þegar maður skoðar feril ÞSSÍ blasir það við að ekki hefur verið hægt að sýna fram á neinar sérstakar brotalamir hjá stofnuninni. Þvert á móti þá hefur ÞSSÍ í mörgum greinum verið fyrirmyndarstofnun í stofnanaflóru ríkisins, eiginlega að öllu leyti. Hún hefur til dæmis verið til fyrirmyndar um það að laga sig að nýjum kröfum. Hún hefur sannarlega gengið í takt við tímann. Hún hefur sýnt frumkvæði. Hún hefur tekið upp nýstárlegar aðferðir og hún hefur tekið upp ýmsar nýjungar sem hafa verið þess eðlis að það hefur vakið verðskuldaða eftirtekt annarra þjóða. Um þetta eru ýmis dæmi. Sú nálgun sem ÞSSÍ hafði til dæmis gagnvart verkefnum í Austur-Afríku, þar sem Ísland leggur töluvert mikla fjármuni til þess að þróa beislun og nýtingu jarðhita, varð til þess að erlendar stofnanir létu af hendi rakna meira en Íslendingar verja til þess tiltekna verkefnis.

Norræni þróunarsjóðurinn hefur þannig lagt fram 700 milljónir sem er meira en íslensk stjórnvöld hafa lagt til þess verkefnis. Með sama hætti kom önnur stofnun og vildi gjarnan taka þátt í verkefni í jarðhita í Rúanda. Þar voru í boði tvær til þrjár milljónir evra, sem eru nokkur hundruð milljónir íslenskra króna. Þegar allt er samanlagt má því segja að stofnunin hafi, undir forustu Engilberts Guðmundssonar, getað aflað sér þúsund milljóna til samlags við það sem íslensk stjórnvöld eru að leggja fram í gegnum Þróunarsamvinnustofnun til margháttaðra jákvæðra framfara sem allar horfa til mikilla bóta í þeim löndum þar sem við erum að starfa.

Eins og ég sagði áðan hefur Ríkisendurskoðun lýst því yfir að stofnunin hafi aldrei farið, eða að minnsta kosti ekki síðan 2008, út fyrir þann ramma fjárlaga sem henni hefur verið settur. Ég held að það megi segja að undir forustu Engilberts Guðmundssonar hafi blásið nýir vindar sem hafa vakið eftirtekt vítt um lönd. Þessir nýju vindar stafa ekki síst af því að forstjóri Þróunarsamvinnustofnunar, sem oft hefur verið nefndur til sögunnar af mér, starfaði um aldarfjórðungsskeið í framlínu annarra stofnana þar sem menn voru að brydda upp á nýjungum. Þær nýjungar færði Engilbert Guðmundsson inn í starf Þróunarsamvinnustofnunar Íslands þegar hann tók við henni. Þar hefur hann verið að þróa þær núna um nokkurra ára bil. Það má svo sannarlega segja að hann hafi sinnt því starfi, ásamt því góða fólki sem þar hefur unnið með honum, á þann veg að óhætt er að segja að í dag sé Þróunarsamvinnustofnun Íslands sannarlega í fremstu röð slíkra stofnana. Þessi ferskleiki, sem ég tók eftir sem ráðherra þegar ég var yfir þessum málaflokki, og sem vakið hefur athygli margra annarra, birtist til dæmis í þeirri stefnu að stofnunin gerir sér far um að láta heimamenn í héraði, þar sem verkefnin eru unnin, ekki bara bera ábyrgð heldur eiga hlutdeild í því að velja og þróa verkefnin. Fyrir tilstilli ÞSSÍ hafa þessar áherslur sitrað inn í stjórnkerfið og í reynd breytt stefnu og áherslum sem við höfum sem þjóð haft í þróunarsamvinnu nú síðustu árin.

Það má segja að það hafi verið ÞSSÍ sem hvarf frá hinum stóru verkefnum fortíðarinnar og lagði áhersluna miklu meira á að bæta nærumhverfið, vinna með grasrótinni, gera eins og við höfum verið að gera í þremur löndum Afríku og ekki síst í Malaví, að sinna menntun, að sinna heilsugæslu, að beina fjármagninu í að bæta aðstöðu mæðra og barna þeirra; kenna mæðrunum að lesa, veita þeim aðgang að heilsugæslu og það sem kannski hefur ekki skipt minnstu máli, að búa til aðgang að fersku og hreinu vatni. Út af þessu hefur staðan í þeim héruðum, t.d. í Malaví þar sem við höfum verið, gjörbreyst, t.d. í Mangochi-héraðinu í Malaví þar sem hundruð manna dóu úr kóleru áður en þessi nálgun var tekin upp. Það er búið að útrýma kóleru á þeim svæðum þar sem ÞSSÍ hefur starfað. Þetta hefur gjörbreytt lífi þessa fólks. Við höfum tekið þátt í því að skapa umhverfi þar sem konur geta fætt börnin sín þannig að miklu meiri líkur eru á því að þau lifi af fæðinguna. Ég get sagt ykkur að þessu trúir enginn, mikilvægi þessarar miklu og fersku nálgunar hjá Þróunarsamvinnustofnun, nema sá sem hefur séð það. Það var ógleymanlegt fyrir mig að fara sem ráðherra til akkúrat þessara svæða í Malaví og sjá þetta sjálfur eigin augum. Að koma inn í rjóður í frumskóginum miðjum þar sem var örlítil bygging þar sem var sængurdeild þar sem konur komu kannski um tugi kílómetra til þess að fá að fæða. Þær lýstu því fyrir mér hversu gríðarlega miklu máli þetta skipti. „Nú deyja börnin ekki,“ sagði ljósmóðirin sem tók á móti mér með örlítinn drifhvítan kappa inni í frumskóginum miðjum. Eða að tala við lækna og hjúkrunarlið, sem í krafti þessarar nálgunar, sem tekin var upp af hálfu ÞSSÍ, fer um krákustíga frumskógarins á bifhjólum og ef það tókst ekki þá á reiðhjólum til þess að sinna sjúku fólki. Það var þessi nálgun sem vakti eftirtekt annarra stofnana miklu stærri landa eins og til dæmis Þróunarsamvinnustofnunar Þýskalands sem baðst sérstaklega leyfis til að fá að kynna sér nákvæmlega þá nálgun sem ÞSSÍ hefur tekið upp í Afríku til þess að stórþjóðin gæti lært af henni.

Í dag er þróunarsamvinnan skilgreind sem einn af burðarásunum í utanríkisstefnu Íslands. ÞSSÍ hefur með þessum miklu ágætum fært stefnuna í framkvæmd með þeim hætti að allir bera lof á, ekki bara ég sem fyrrverandi ráðherra heldur líka núverandi ráðherra og hv. formaður utanríkismálanefndar og nú ætlar allt þetta fólk, og þingið ef að líkum lætur, að verðlauna stofnunina sem enginn hefur neitt getað fundið að með því að leggja hana niður.

Það er þetta sem ég átti við þegar ég sagði áðan, herra forseti, að ég hefði aldrei á mínum langa ferli hér nokkru sinni séð koma mál sem hefur verið jafn undarlegt, jafn sérkennilegt og sem enginn maður fær neinn botn í. Það hefði verið miklu vitlegra við þessar aðstæður að skoða með einhverjum hætti hvort ekki ætti að búa betur um þá hnúta sem bundið er um ÞSSÍ, gera hana betur í stakk búna til þess til dæmis að taka við þeim auknu verkefnum sem hv. þingmaður og formaður utanríkismálanefndar benti réttilega á að bíða Íslendinga í þróunarsamvinnu vegna þess að þessi ríkisstjórn, eftir að hafa skorið niður framlög samanlagt, frá þróunarsamvinnuáætlun sem hér var samþykkt einróma árið 2011, um fjóra milljarða, þá hefur hann að minnsta kosti boðað það að fara eigi í hægfara aukningu á framlögum til þróunarsamvinnu.

Við þessar aðstæður, herra forseti, hefði ég talið að það væri miklu frekar hlutverk utanríkismálanefndar, sérstaklega formanns utanríkismálanefndar, en ekki síður annarra sem í nefndinni sitja, að skoða með hvaða hætti væri best að horfa til framtíðarinnar.

Það er alveg rétt sem hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir sagði að við sem sitjum í nefndinni fengum sannarlega ráðrúm til þess að kalla þá til okkar sem við vildum. Ég var þó þeirrar skoðunar að það þyrfti að fara miklu betur yfir ýmsar umsagnir og skoða betur þau gögn sem fyrir lágu, ekki síst vegna þess, eins og hv. þm. Kristján L. Möller sagði hér áðan, að það voru þrír nýir þingmenn í utanríkismálanefnd. Einn af þeim er hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir. Ég hygg, eftir að hafa hlustað á yfirferð hennar hér, um hvað það er sem kemur fram í úttekt DAC-þróunarsamvinnunefndarinnar á ÞSSÍ, þá hefði þeim tíma verið vel varið að staldra við og skoða hlutina svolítið betur.

Það er ekki rétt, sem kemur fram í greinargerð með frumvarpinu, að í úttekt DAC-nefndarinnar hafi verið lagt til að fyrirkomulaginu yrði breytt. Hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir fór að vísu miklu varfærnari orðum þar um, en af máli hennar mátti samt ráða að í skýrslunni hefðu verið sterkar ábendingar um að ráðast í breytingar. Það er ekki rétt. Það er misskilningur og það er einn af mörgum misskilningum vegna þess að ekki vil ég kalla það rangfærslur sem stendur í greinargerð með frumvarpinu, en þar kemur aftur og aftur fram að í úttekt DAC-nefndarinnar megi finna ábendingar eða vísbendingar um að breyta fyrirkomulaginu. Það er ekki svo. Þar kemur hins vegar skýrt fram að þegar DAC-nefndin situr að störfum þá er hún að horfa til nýs veruleika í umhverfinu í þróunarsamvinnu á Íslandi. Þá er hún að horfa á áætlun sem nýbúið er að samþykkja einróma hér á hinu háa Alþingi þar sem lagt er til að jafnt og þétt yrðu framlög aukin og hækkuð til þróunarsamvinnu þangað til þau næðu, árið 2020, 0,7% af vergri landsframleiðslu. Þetta, segir í áliti DAC-nefndarinnar, kallar á gríðarleg ný verkefni og það er vitaskuld rétt niðurstaða.

Út af áætluninni, sem þingið samþykkti, með sérstakri blessun núverandi formanns Sjálfstæðisflokksins, sem sagðist telja hana raunhæfa, blasti við að verið var að margfalda framlögin til þróunarsamvinnu. Við þær aðstæður beindi úttektarnefndin á vegum DAC því til íslenskra stjórnvalda að þau mundu meta fyrirkomulag þróunarsamvinnu á Íslandi. Þau sögðu hvergi að það svaraði ekki núverandi stöðu, sögðu reyndar ekki heldur að það dygði ekki til þess að geta tekist á við þau nýju verkefni sem við blöstu þá að þeirri ályktun samþykktri. Hvergi, svo að það sé undirstrikað, í áliti DAC-nefndarinnar er nokkurs staðar vikið að því, gefinn minnsti blær að því, að leggja eigi stofnunina niður. Þetta þarf að koma algjörlega skýrt fram vegna þess að það er rangt sem segir í greinargerð með frumvarpi hæstv. ráðherra að álitið frá þróunarsamvinnunefnd OECD sé hægt að skilja á þann veg að það þurfi að gjörbreyta fyrirkomulaginu.

Það kemur líka fram í greinargerð með frumvarpinu, og kom fram mörgum sinnum í ræðu hæstv. ráðherra, að fyrirkomulagið og ramminn sem er utan um þróunarsamvinnu okkar Íslendinga væri eitthvað sérstakur, einstakur. Hér hefði þróast einhver sérstök útgáfa af þróunarsamvinnu sem byggi við kerfi sem væri allt öðruvísi en annars staðar. Þetta er rangt, herra forseti. Þetta er partur af þeim misskilningi eða þeim röngu fullyrðingum sem meginefni frumvarpsins er byggt á.

Í yfirferð hv. utanríkismálanefndar kom það til dæmis algjörlega skýrt fram — eins og í máli prófessors Daða Más Kristóferssonar sem ræddi við okkur málin fyrir hönd félagsvísindasviðs Háskóla Íslands ásamt prófessor Jónínu Einarsdóttur — að það væri algjörlega skýrt að það fyrirkomulag sem er hér á Íslandi, þar sem framkvæmd er á einni hendi og þar sem eftirlit og stefnumótun er á annarri hendi, er algjörlega í samræmi við það sem meiri hluti stofnana á þessu sviði býr við.

Það má líka velta öðru fyrir sér. Hvað eru aðrar þjóðir nákvæmlega núna að gera í þessum efnum? Tökum land eins og Ítalíu sem er umsvifamikið á sviði þróunarsamvinnu. Ítalska ríkisstjórnin hin síðasta tók sér fyrir hendur að endurskoða sína þróunarsamvinnu. Hún kallaði til hóp vísra manna og kvenna og að vandlega yfirveguðu ráði þá hrinti ríkisstjórn Ítalíu í framkvæmd tillögum þessarar nefndar. Í hverju fólust þessar tillögur? Í að gjörbreyta fyrirkomulaginu á Ítalíu á þann veg að setja upp sérstaka stofnun alveg eins og ÞSSÍ og taka verkefnin út úr ráðuneytinu.

Með öðrum orðum, herra forseti, það sem ítalska ríkisstjórnin taldi best til að svara kröfum tímans, varðandi fyrirkomulag á þróunarsamvinnu, því er íslenska ríkisstjórnin að hafna. Í þessu speglast kannski vitleysan sem hægt er að lesa út úr tillögum hæstv. ráðherra.

Ég kem þá að því, herra forseti, sem mér finnst vera verst í þessu frumvarpi. Það eru þær ýjanir og dylgjur sem koma fram gagnvart stofnuninni, og þar með óhjákvæmilega líka gagnvart starfsmönnum hennar, um að hún hafi ekki staðið sig í stykkinu. Aftur og aftur er verið að tala um að það þurfi þessa breytingu til þess að koma í veg fyrir tvíverknað. Aftur og aftur er talað um það, eins og í ræðum hæstv. ráðherra, að það þurfi að sjá til þess að ÞSSÍ gangi í takt við utanríkisstefnu Íslands. Aftur og aftur er lögð áhersla á það að ÞSSÍ og utanríkisráðuneytið verði að tala einni röddu. Og aftur og aftur er talað um að auka þurfi hagkvæmni og að hagræða innan stofnunarinnar.

Við sem sátum í nefndinni í ár og í fyrra gengum eftir því við alla gesti sem komu til okkar að fá fram dæmi um hvar það hefði gerst að stofnunin hefði ekki gengið í takt við utanríkisstefnu íslensku ríkisstjórnarinnar en við fengum engin dæmi. Það var hvergi hægt að benda á eitt einasta dæmi. Hæstv. ráðherra lét sér það sæma hér undir lok umræðunnar í fyrra að tala myrkum rómi um að það væru hlutir sem hann gæti ekki sagt frá í þessum sal. Best væri að utanríkismálanefnd mundi ræða það innan fjögurra veggja í skjóli þess trúnaðar sem þar ríkir. Það var gert. Þetta kemur glögglega fram í nefndaráliti sem við höfum skilað, minni hlutinn. Þetta kemur líka fram í umsögn ÞSSÍ vegna þess að þau nefna þetta dæmi. Það var ekki annað en það að þegar á sínum tíma kom upp ákveðin mál, sem vörðuðu ofsóknir gagnvart samkynhneigðum í Úganda, þá þurfti að slípa til orðalag í samskiptum ráðuneytisins og starfsmanna ÞSSÍ niðri í Afríku til þess að allir yrðu sáttir. Þegar upp var staðið, eins og segir í umsögn frá ÞSSÍ, þá var það auðvitað þannig að ráðuneytið var fyllilega sátt við það sem var niðurstaðan. Þetta er ekkert annað en er alsiða í utanríkisþjónustunni þar sem menn á vettvangi og þeir sem sitja heima ráða ráðum sínum og komast að niðurstöðu um það með hvaða hætti eigi að bera mál Íslands fram. Þetta var eina dæmið. Það hefur hvergi verið hægt að benda á neitt sem ekki er til fyrirmyndar að því er varðar rekstur þessarar stofnunar.

Ég verð því að segja að lokum, herra forseti, að mér er til efs að nokkru sinni hafi komið fram frumvarp sem varðar jafn mikilvægt mál og það sem við ræðum hér sem hefur jafn lítinn eða jafnvel engan rökstuðning að baki sér. Það hefur aldrei gerst áður að við höfum staðið hér dögum saman, eins og í fyrra og jafnvel á þessu ári, og rætt þetta mál og við öll tækifæri, þegar hæstv. ráðherra hefur verið staddur hér, höfum við gengið eftir því hvar dæmin væru sem sýna fram á að stofnunin hafi ekki staðið sig nógu vel og hver vandamálin væru sem þyrfti að leysa með því að leggja ÞSSÍ niður. Þau dæmi hafa aldrei komið fram. Þetta er því geðþóttaákvörðun. Ráðherrann hefur ekkert fyrir sér og hann er að gera þetta „af því bara“, af því að hann asnaðist til að hlusta á embættismenn sína, meðan hann var blautur á bak við eyrun, og segja já. Hann getur ekki í augum þeirra heykst á því að bera málið fram. Það er eina skýringin sem ég sé fyrir þessu máli.

Ég tel að við þessar aðstæður hefði verið miklu vitlegra að skoða málið út frá þeim valkostum öllum sem Þórir Guðmundsson lagði fram í hinni merku skýrslu sinni. Þar voru tveir aðalvalkostir. Annar að hafa skipan þróunarsamvinnunnar í óbreyttu horfi, hin skipanin var sú að flytja verkefni frá utanríkisráðuneytinu til Þróunarsamvinnustofnunar. Sá sem mest vit hefur á þessu á Íslandi, prófessor Jónína Einarsdóttir, sem hefur bæði praktíska og fræðilega reynslu af þróunarsamvinnu, kom á fund nefndarinnar og álit og umsögn félagsvísindasviðs Háskóla Íslands var sammála niðurstöðu hennar, það var hin sama niðurstaða og Davíð Oddsson komst að á sínum tíma: Best væri fyrir málaflokkinn (Forseti hringir.) að flytja verkefni frá utanríkisráðuneytinu til ÞSSÍ. Verst fyrir málaflokkinn væri að gera það sem hér er að gerast í dag, að leggja stofnunina niður.