145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:16]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er ekki mjög leyndardómsfullt mál í sjálfu sér, að minnsta kosti ekki í meginatriðum. Það er skýrsla og hún er lögð fram og þar koma fram ýmis efnisatriði sem hægt er að ræða. En eitt kveikti forvitni mína og það var það sem hæstv. ráðherra taldi sig ekki mega tala hér um. Það varðar þennan meinta ríg eða þá samskiptaörðugleika sem hv. þingmaður fór lauslega yfir að hefðu einungis reynst vera þessi meinti ágreiningur um það hvernig ætti að tjá sig í Úganda, því annars ágæta landi, í sambandi við meðferð samkynhneigðra.

Þar sem hv. þingmaður er jú fyrrverandi utanríkisráðherra þá finnst mér við hæfi að spyrja og kannski velta því aðeins upp á yfirborðið: Er það eitthvað í samskiptum opinberra starfsmanna sem er svo slæmt að það valdi því að stofnun sé lögð niður eða að högum heilu ríkisstofnananna sé breytt vegna rígs eða samskiptaörðugleika starfsmanna ríkisins? Ég spyr hvort hv. þingmaður hafi orðið var við það á seinasta kjörtímabili, þegar hann var utanríkisráðherra, að á ferð væru samskiptaörðugleikar sem gætu réttlætt svo stór skref, hvort sem þau væru í átt að því að leggja stofnunina niður og flytja starfsemina í utanríkisráðuneytið eða öfugt eða hvað eina.

Mér finnst erfitt að trúa því að við stöndum hér, kjörnir fulltrúar, og ræðum það í fúlustu alvöru að leggja niður stofnun eða breyta hlutverki hennar vegna þess að starfsmönnum kemur ekki saman. Það er þessi hlutur sem ég skil ekki. Og hluti af ástæðunni fyrir því að ég skil þetta ekki er sá að það kemur ekkert efnislegt fram nema þetta eina atriði með Úganda.

Ef það er eitthvað fleira sem liggur undir þá tel ég mikilvægt að við komum því upp á yfirborðið; ef við ætlum að ræða það hér á hinu háa Alþingi sem á jú að heita opinn vettvangur.