145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:19]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Því er fljótsvarað. Það voru aldrei neinir samstarfsörðugleikar milli starfsmanna ráðuneytisins og starfsmanna ÞSSÍ meðan ég réði þar húsum. Það hefur komið algjörlega skýrt fram, meðal annars af hálfu hæstv. ráðherra, að ekkert slíkt hefur verið í gangi síðan. Það kom aftur og aftur fram í samtölum við gesti, sem voru bæði fulltrúar ráðuneytisins og ÞSSÍ, að samskiptin hefðu verið ákaflega lipur og góð og í skýrslu DAC-nefndarinnar er sérstaklega fjallað um þetta og talað um lipur, snurðulaus og fagleg samskipti.

Ég veit hins vegar ekki hvaða tilfinningar hæstv. ráðherra kann að hafa þróað með sér. Hugsanlega var honum ekki vel við það að starfsmenn ÞSSÍ brugðust eðlilega vel við því að svara spurningum þingmanna undanbragðalaust. Þeir sögðu frá sínum viðhorfum og þeir greindu frá því með hvaða hætti þróunin er í þessum málaflokki erlendis. Það var alveg ljóst að hæstv. ráðherra var ekkert vel við það.

Það birtist til dæmis í því að þegar ráðherrann ákvað um síðir að heimsækja svæðið, sem við eigum í þróunarsamvinnu við, vildi hann ekki að neinn starfsmaður ÞSSÍ fylgdi honum. Það hefur aldrei gerst áður að ráðherra hafi farið í slíkar heimsóknir án þess að einhver yfirmaður eða forstjóri stofnunarinnar fylgdi honum í slíka för, enda var hann þar að heimsækja starfsstöðvar ÞSSÍ. Ég kemst bara að þeirri niðurstöðu að þarna hafi verið um persónulega duttlunga hæstv. ráðherra að ræða. Honum hefur aldrei tekist að flytja neinar röksemdir fyrir þessu máli, ekki frekar en þeim sem hann flutti hér áðan í framsögu fyrir áliti meiri hlutans. Meiri hlutinn hefur engin rök fyrir þessu. Meira að segja einn af þeim stendur að álitinu hefur komið með hvössustu gagnrýnina á það, eins og við eigum væntanlega eftir að heyra hér síðar. Þannig að þetta er nú svar mitt.

Samstarfið hefur alltaf verið óaðfinnanlegt og forusta ÞSSÍ nýtur almennrar alþjóðlegrar virðingar í sínum geira.