145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:21]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég trúi hv. þingmanni og fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra mjög vel þegar hann segir slíkt. Svo kemur hér fram í þessu minnihlutaáliti, sem við báðir stöndum að, að svo virðist sem það hafi verið staðföst stefna embættismanna utanríkisráðuneytisins um langt skeið en ekki stjórnmálamanna að leggja niður ÞSSÍ. Þannig að maður finnur vísbendingar hér og þar um að þetta sé embættismannaslagur sem einhvern veginn hafi haft áhrif á dómgreind hins annars ágæta og hæstv. utanríkisráðherra. Ég spurði að þessu vegna þess að mér finnst þessi ráðgáta ekki alveg endanlega leyst.

Að því sögðu langar mig að spyrja hv. þingmann um annað atriði sem eru hinar hugmyndirnar um að styrkja ÞSSÍ og flytja fleiri verkefni til hennar. Ég spyr hvort hv. þingmaður mundi styðja þá leið sem einnig kom fram í skýrslu Þóris Guðmundssonar.