145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:22]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Það kom skýrt fram í vinnu nefndarinnar að hæstv. ráðherra misskildi alvarlega eina af athugasemdum hinnar svokölluðu DAC-nefndar. Hún benti á að fyrirkomulagið á þróunarsamvinnu væri öðruvísi hér á landi en annars staðar. Það varð honum tilefni til þess að túlka það svo að nefndin væri að leggja til að því yrði breytt. En hvað var það sem nefndin átti við eins og upplýst var innan utanríkismálanefndar? Jú, þegar úttektarfólkið fór að skoða fjárframlögin kom í ljós að 60% af því sem átti að fara til tvíhliða verkefna af Íslands hálfu er veitt af utanríkisráðuneytinu þó að lögin segi að það eigi að fara í gegnum ÞSSÍ. Við höfum með öðrum orðum ekki farið algjörlega að lögum samkvæmt þessu. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að það væri farsælast að stíga það skref (Forseti hringir.) núna að flytja öll tvíhliða verkefnin frá utanríkisráðuneytinu yfir til ÞSSÍ og styrkja hana þannig. Síðan kemur vel til greina í framhaldinu að skoða hina góðu tillögu Davíðs Oddssonar sem hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir vill ekki lengur fylgja.