145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:24]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann, sem hélt hér afbragðsgóða ræðu og fór vel yfir málið, um afleiðingarnar sem gætu orðið af þessari breytingu, ef af henni verður, þá sérstaklega það álit Sigurbjargar Sigurgeirsdóttur stjórnsýslufræðings sem hefur látið sig málefni gagnsæis og spillingar varða og verið meðal annars tengd félagasamtökum á því sviði. Sigurbjörg kom á fund nefndarinnar á síðasta þingi um málið og í viðtali við Stundina segir hún að með færslu Þróunarsamvinnustofnunar undir utanríkisráðuneytið vari hún við því að öll framlegð íslenskra skattgreiðenda til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu lendi í einum potti innan ráðuneytisins. Þetta auki möguleika ráðherra til að afla sér áhrifa innan þess potts og segir, með leyfi forseta, „að sá pottur mun verða „gruggugri“ eftir þann flutning.“ Þetta fullyrðir hún í ljósi þess að alla jafna sé erfiðara að fylgjast með því sem gerist innan ráðuneytanna en innan undirstofnana þeirra, vísar til dæmis til þess að fáheyrt sé til að mynda að Ríkisendurskoðun geri stjórnsýsluúttekt á ráðuneytunum. Það er auðvitað hárrétt. Það er ekki gert. Og vísar svo til þeirrar almennu reglu sem við hv. þingmaður höfum ítrekað gert að umtalsefni í ræðum okkar um þessi mál, að það er mun eðlilegra fyrirkomulag að koma framkvæmdaverkefnum fyrir í stofnunum utan ráðuneytis þannig að ráðuneytið geti þá fylgt eftirlitshlutverki sínu.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að það sé raunveruleg hætta með flutningi alls fjármagns til þessa málaflokks í einn pott beint undir ráðherra. Erum við að gera þetta kerfi, þennan pott gruggugri?