145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:28]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svör hans. Það er svo að eftir þessa umræðu, bæði þá sem hefur átt sér stað á þessu þingi og líka þá umræðu sem varð í hv. utanríkismálanefnd þegar ég sat þar á síðasta þingi, að mér er enn mjög óljóst hve rökin eru nákvæmlega fyrir frumvarpinu. Ég er farin að velta fyrir mér hvort hér sé hreinlega um mál að ræða sem er farið að tengjast persónulegu stolti einstakra aðila, hæstvirts ráðherra, hann leiti eftir stuðningi meiri hlutans án þess að nokkur maður virðist hafa nokkra sannfæringu fyrir málinu. Ég verð að lýsa áhyggjum af því. Ég ætla að spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála því, því að það er ekki góður leiðarvísir að ráðast í svona brambolt eingöngu til að ná þeim markmiðum að stolt manns særist ekki. Það (Forseti hringir.) er ekki góður vegvísir. Ég spyr hv. þingmann: Er þetta drifkrafturinn?