145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:29]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ótvírætt megi segja að svarið sé já. Ég er hv. þingmanni sammála. Ég hef reynt að rekja það að mér er gersamlega ómögulegt að sjá nokkurn snefil af vísi að röksemdum fyrir þessari breytingu. Enginn hefur getað flutt þau rök. Hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir sem kemur með ný og glögg augu að þessu máli og flutti framsögu fyrir áliti meiri hlutans áðan gat það ekki, hún skautaði yfir það í þremur eða fjórum setningum. Það hefur enginn getað það. Ég held að hv. þingmaður eigi kollgátuna, það sé fyrst og fremst persónulegt stolt.

Hæstv. ráðherra lagði málið fram, lét plata sig til þess af embættismönnum. Þeim gengur nú svo sem töluvert annað til og lentu hér á hörðum vegg með þetta mál og mörg önnur. Það var persónulegt stolt sem olli því að hann gerði þetta að eina málinu, fyrsta málinu sem hann lagði fram. Það eru engin önnur mál svo að segja, nema EES-málin, á þingmálalista hans. Ég held að það sé ekkert annað sem veldur þessu.

Þess vegna segi ég að á mínum ferli hef ég aldrei (Forseti hringir.) séð jafn djúprist mál koma fram með jafn litlum (Forseti hringir.) og flumbrulegum rökstuðningi eins og þetta.