145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:59]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er dálítið sérkennilegt mál að því leyti að Þróunarsamvinnustofnun Íslands er eina fagstofnun utanríkisráðuneytisins. Þetta er ekki eins og með mörg önnur ráðuneyti sem hafa fjölmargar fagstofnanir og þurfa að hafa samskipti við þær.

Munurinn er sá að fagstofnanir hafa umtalsvert sjálfstæði. Þær vinna samkvæmt stefnu stjórnvalda en hafa ákveðið sjálfstæði í því hvernig þeirri stefnu er framfylgt. Þær hafa ákveðið sjálfstæði í því hvernig þær miðla upplýsingum um þá framkvæmd mála sem er aðeins annars eðlis en þegar kemur til dæmis að ráðuneytum sem eru stjórnsýslustofnanir, lúta pólitískri stjórn. Að sjálfsögðu mun þetta breyta því að allur málaflokkurinn er í raun kominn undir pólitíska stjórn.

Hvað býr að baki? Ég get ekki svarað því öðruvísi en að það hljóti þá að vera metnaðarmál hæstv. ráðherra að ná öllum málaflokknum undir pólitíska stjórn og þar er ég bara hjartanlega ósammála hæstv. ráðherra.