145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:01]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það hefur ekkert komið fram — ekki í vinnu hv. utanríkismálanefndar í fyrra og ekki heldur í máli þeirra hv. þingmanna sem nú sitja í nefndinni — um að á samstarfsörðugleika hafi verið minnst. Það hefur verið talað um einhvern tvíverknað en það hefur ekki verið skilgreint nánar fyrir nefndinni eða að minnsta kosti ekki þegar ég var í henni og ekki í umræðum hér á Alþingi. Ég lít því svo á að þetta mál snúist um að færa málaflokkinn undir pólitíska stjórn.

Við getum, í ljósi þess að þetta er einmitt eina fagstofnun ráðuneytisins, farið að bera ýmsar aðrar stofnanir upp að þessu sama líkani og velta því fyrir okkur hvort okkur þætti æskilegt að ýmsar framkvæmdastofnanir, segjum á sviði menningarmála, mundu verða sameinaðar mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Þar er vissulega menningarskrifstofa, sem fer með ýmis verkefni á sviði menningarmála, en sæjum við það fyrir okkur að þessar stofnanir yrðu sameinaðar ráðuneytinu?