145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:02]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil nú byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir góða og skelegga ræðu í þessu máli. Ég verð að viðurkenna eins og margir aðrir að ég kem alveg af fjöllum í þessu máli og finnst það alveg hreint með hreinum ólíkindum þegar ég hef hlustað á rökin. Ég hef reyndar ekki farið mjög grundigt í það vegna þess að ég er ekki í utanríkismálanefnd og hef nóg á minni könnu samt. Þetta mál vekur athygli mína. Þingmaðurinn kom meðal annars inn á það sem kemur fram í nefndaráliti minni hlutans að það virðist vera staðföst stefna embættismanna í utanríkisráðuneytinu að fá þennan málaflokk inn. Það virðist hafa verið fært í tal við alla ráðherra sem hafa gengt þessu starfi frá aldamótum, samkvæmt því sem stendur hér, að fá þetta inn í ráðuneytið. Hún nefndi líka að kannski vildi ráðherrann í þessu tilfelli fá meira pólitískt vald og allt pólitískt vald til sín. Af því þetta kemur hér fram þá er ég að velta fyrir mér og verð að spyrja hv. þingmann: Hvers vegna er verið að gera þetta? Hún nefndi að við ættum að velta því fyrir okkur hvers vegna væri verið að gera þetta.