145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:03]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég á afar erfitt með að svara spurningunni eins og ég tel að hafi komið fram í ræðu minni. Ég velti þessu auðvitað fyrir mér.

Ég gæti tekið sem dæmi stofnun sem skiptir mjög miklu máli, landlæknisembættið sem fer með framkvæmd lýðheilsumála og eftirlit með læknum og hefur ýmis verkefni. Mundum við vilja flytja hana inn í heilbrigðisráðuneytið af því þar fer líka ákveðið eftirlit fram með því sem er í gangi og þar er ákveðin lýðheilsustefna? Til að koma í veg fyrir tvíverknað, t.d. ráðherranefndar um lýðheilsumál og landlæknisembættis, eigum við ekki bara að sameina þetta? Ég spyr mig bara, af því hv. þingmaður spyr hvers vegna, hvaða stefna sé eiginlega í gangi hjá hæstv. ríkisstjórn um þetta stofnanafyrirkomulag. (Gripið fram í: Engin.) Mér finnst þetta satt að segja líta út eins og kaos.