145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:05]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að vona að það sé ekki hætta á því, en hættan er sú að almenningur verði mun síður upplýstur um hvaða hlutverki Ísland sinni í þróunarsamvinnu og hafi þar með mun minni tækifæri til þess að fylgjast með því að hagsmunir fátækra ríkja verði ekki fyrir borð bornir. Það er auðvitað það sem hefur verið bent á. Ég vitnaði meðal annars til Sigurbjargar Sigurgeirsdóttur áðan sem sagði að þegar saman væru komin utanríkisviðskipti, þróunarsamvinna og allt undir eina stofnum og undir pólitíska stjórn þá hefði maður auðvitað áhyggjur af því að það kynni að vera óheppileg blanda. Það er ekkert séríslenskt, ég fór yfir hollenska skýrslu þar sem svipaðar breytingar í Hollandi voru einmitt metnar og nákvæmlega þessi varnaðarorð komu fram. Það var ekkert unnið með þá skýrslu meir í Hollandi, eftir því sem mér skilst, en í henni voru nákvæmlega sömu varnaðarorð þannig að ég mæli nú með því að hv. þingmenn kynni sér hana.