145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:08]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Aðeins um starfsmennina sem hv. þingmaður nefndi hér: Það liggur fyrir, eins og ég kom lítillega að áðan, að það er eðlismunur á því að vinna innan sérfræði- eða fagstofnunar og hins vegar innan ráðuneytis eins og utanríkisráðuneytisins þar sem er flutningsskylda. Auðvitað mun það sjálfkrafa hafa ákveðin áhrif á framkvæmd málaflokksins. Fyrir utan það að þarna eru úrlausnarefni fram undan fyrir ráðuneytið að úrskurða um það til dæmis hvort allir starfsmenn fái sambærileg störf, og þar úrskurðar ráðuneytið hvaða störf teljast þá sambærileg. Væntanlega verða breytingar á framkvæmdinni við þetta.

Ég spyr mig að því, út af spurningu hv. þingmanns, hvers vegna farið sé í þessar breytingar með tilheyrandi tilkostnaði og tilheyrandi átökum, getum við sagt, ef ekki er ætlunin að breyta stefnunni.