145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:15]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það kann að vera rétt hjá hv. þingmanni að þarna spili fjármunir og niðurskurður undanfarinna ára inn í en þó vil ég nefna að þetta er ekki ný hugmynd, hún er ekki ný af nálinni. Það hefur lengi verið kappsmál utanríkisráðuneytisins að fella þessa stofnun inn í starfsramma sinni þannig að ég held að þetta sé ekki eina ástæðan fyrir þessu. Við erum með dæmi sem sýna að það hefur lengi verið kappsmál utanríkisráðuneytisins að fá þessa stofnun inn. Vissulega er það rétt sem hv. þingmaður segir að skorið hefur verið niður hjá ráðuneytinu en þetta snýst líka um völd yfir málaflokknum. Ég er viss um að þeir sem gegnt hafa ráðherraembættum hafa stundum hugsað að það væri ágætt að hafa meiri tök á fagstofnunum sínum. Það kann vel að vera. Vönduð stjórnsýsla snýst einmitt um að við höfum sjálfstæðar stofnanir, sem skiptir máli fyrir almenning í landinu. Það gæti orðið afleiðingin af þessu að það drægi úr trausti á stjórnsýslunni í kringum málaflokkinn og það er mjög alvarleg afleiðing.