145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:35]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég deili undrun hv. þingmanns yfir því að þetta mál sé yfir höfuð lagt fram og hvað þá að á eftir því sé rekið eins og raun ber vitni. Það skýrist kannski að einhverju leyti af málaþurrðinni í þinginu, alla vega hvað varðar hæstv. ríkisstjórn, sem maður hefði nú haldið að ætti að vera búin að koma forgangsmálum sínum vel á framfæri í þinginu. Það er ákveðin ráðgáta hvers vegna svo er ekki.

En eitt af því sem við höfum ekki rætt mikið í þessari umferð í umræðu um málið eru friðargæslumálin. Við ræddum þau svolítið í fyrra. Friðargæsla telst jú til þróunarsamvinnu en við höfum áhyggjur, ég, hv. þingmaður og fleiri, af því að með því að leggja niður ÞSSÍ og færa verkefni hennar til utanríkisráðuneytisins sé hætta á meiri pólitískum afskiptum af hlutum sem annars ætti að meta faglega.

Í umsögn Rauða kross Íslands, sem barst á þessu þingi og einnig á síðasta þingi, er lagt til að um friðargæsluna verði sett sérstök lög, að hafa eigi allt sem lýtur að starfsemi friðargæslu í lögum um friðargæsluna en ekki í lögum um þróunarsamvinnu. Ég velti fyrir mér hvort einhverjar hættur séu fólgnar í því að með því að hafa þróunarsamvinnuna, friðargæsluna og utanríkisráðuneytið í einum graut, ef svo mætti að orði komast, verði meiri pólitísk afskipti af þróunarsamvinnunni í heild og þar á meðal af friðargæslu.

Ég verð að viðurkenna að ég þekki ekki mjög vel sjálfur hvernig samband friðargæslunnar og þróunarsamvinnunnar er eða ætti að vera. Þess vegna hef ég áhuga á að vita hvernig menn sjá fyrir sér að þau tengsl ættu að vera og sér í lagi samskipti við ráðherrann og hið pólitíska almennt.