145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:03]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og aðrir sem hafa tekið til máls bendir hv. þingmaður á að það sé afskaplega lítil ástæða til þess að samþykkja þetta frumvarp. Eins og hefur líka komið fram hér í ræðum og fyrr á þessu þingi og á fyrri þingum þá eru önnur verkefni sem sitja eftir þegar kemur að þróunarsamvinnu. Þá mætti kannski helst nefna það sem mörgum þykir mjög háleitt markmið en mér þykir í meginatriðum sjálfsagt, að Ísland nái því markmiði að greiða 0,7% af vergum þjóðartekjum til þróunarsamvinnu. Með hliðsjón af því að nú sjáum við að við komumst ekki nálægt því að ná því markmiði þá fer svolítið í taugarnar á mér, eins og margt annað sem varðar samskipti hæstvirtra ráðherra við þingið, að það var þingið sem ákvað að ná því markmiði. Þingið ákvað árið 2011 með 46 eða 47 atkvæðum, að mig minnir, gegn engu, ekki einu sinni ein manneskja sat hjá, að ná þessu markmiði. Við fjarlægjumst þetta markmið frekar en að komast nær því.

Þegar menn leggja fram frumvarp eins og þetta og nota til rökstuðnings að hér þurfi að auka einhverja hagkvæmni þá velta menn fyrir sér: Er það við hæfi þegar við náum ekki einu sinni því markmiði sem þingið sjálft hefur samþykkt að það vilji? Því miður er það hætt að koma á óvart að hæstv. ríkisstjórn fari svona á svig við það sem er skýr vilji þingsins og sér í lagi þegar um er að ræða hæstv. ráðherra sem voru á seinasta þingi, að vísu í stjórnarandstöðu.

Ég velti fyrir mér hvernig hv. þingmaður sér fyrir sér að forgangsröðun í þessum málaflokki eigi að liggja miðað við að það frumvarp hefur verið lagt fram.