145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:08]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nákvæmlega og mikil ósköp, ég tek mjög eindregið undir það að á þessum tíma voru enn varfærar spár um aukningu hagvaxtar og uppgangs í efnahagsmálum þó að það væri byrjað að glitta í ágæta tíma fram undan eftir samdráttarárin þar á undan. Ef eitthvað væri þá ættum við að standa hér og ræða, vonandi í sátt og einingu, að staðið yrði við fyrri þingsályktun og heldur gefið í. Eins og þingmaðurinn benti á var þar nokkurs konar endurskoðunarákvæði að finna þar sem gefinn var boltinn með það að ef betur gengi og betur áraði en ráð var fyrir gert þá væri hægt að ná hraðar þeim markmiðum þannig að við stæðum á pari við aðrar Norðurlandaþjóðir í framlögum út frá vergri landsframleiðslu til þróunarmála. Þær þjóðir hafa náttúrlega staðið alveg sérstaklega vel að þeim málum.