145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:16]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar fyrst til þess að þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þetta áhugaverða innlegg. Eins og segir í nefndarálitinu og í greinargerð frumvarpsins er tilgangurinn með því að færa þetta inn í ráðuneytið að koma í veg fyrir einhverja skörun í fyrsta lagi og í öðru lagi að styrkja tengsl þróunarsamvinnunnar við önnur utanríkismál. Það er ítrekað oft og mörgum sinnum. Þegar ég las bæði yfir nefndarálit meiri hlutans og að sjálfsögðu greinargerðina með frumvarpinu þá virtist vera eins og að þarna ætti sér stað einhver tvíverknaður. Ég gæti ekki séð annað ef ég læsi bara greinargerðina og nefndarálitið en að svo væri. Það er kannski ljótt að draga það í efa nema að betur athuguðu máli en það kom svolítið flatt upp á mig þegar ég las nefndarálit minni hlutans, t.d. þar sem þessum rökum er hnekkt.

Það sem mig langaði helst að vita er hvort við værum ekki svolítið að fara aftur til fortíðar með því að skilgreina hagkvæmni og skilvirkni með miðstýringu því að það virðist vera það sem hæstv. utanríkisráðherra er að boða með þessu. Hvert er álit hv. þingmanns á því? Við erum náttúrlega að tala um að þarna er verið að taka heila stofnun aftur inn í ráðuneytið sem hefur að því er virðist aldrei gerst áður. Þarna er verið að auka miðstýringu. Er það ekki svolítið torkennilegt? Er það ekki eitthvað sem við höfum verið að reyna að forðast?