145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:34]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Forsætisráðherra neitar að taka sérstaka umræðu um afnám verðtryggingar og vísar ábyrgð á því á fjármálaráðherra. En það var ekki Bjarni Benediktsson sem lofaði afnámi verðtryggingar, það var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og þess vegna á hann að svara fyrir það hér í þinginu.

Hafi Framsóknarflokkurinn falið Bjarna Benediktssyni, sem er yfirlýstur andstæðingur banns við verðtryggingu, ábyrgð á málinu er það ákvörðun flokksins um að efna ekki kosningaloforðið og enn ríkari ástæða til að formaður Framsóknarflokksins svari fyrir það.

Undanbrögð forsætisráðherra hafa verið þau að málið sé á borðum annarra ráðherra. Þó hefur forsætisráðherra tekið hér sérstakar umræður um Evrópusambandið og um málefni innflytjenda sem augljóslega eru á borðum annarra ráðherra.

Það er þess vegna útúrsnúningur og flótti að neita að ræða stærsta kosningaloforð eigin flokks í kosningunum og stefnumál eigin ríkisstjórnar (Forseti hringir.) þegar eftir því er leitað í þinginu og því er tillaga þessi flutt.