145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:41]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég styð þessa dagskrártillögu. Ég hlýddi á hæstv. forsætisráðherra eða las öllu heldur eftir honum haft að hann væri tilbúinn að ræða verðtrygginguna við hvern sem er, þar á meðal þáttastjórnendur á Bylgjunni og jafnvel Samfylkinguna eins og það var orðað, ég veit ekki hvort rétt var eftir haft. Ég skil bara ekki af hverju það má ekki gerast í þinginu. Hæstv. forsætisráðherra átti ágæta umræðu við mig um daginn um málefni flóttamanna þrátt fyrir að þau heyri annars vegar undir hæstv. félagsmálaráðherra og hins vegar hæstv. innanríkisráðherra. Ég held að hæstv. forsætisráðherra verði að finna lausn til að hann geti rætt þetta stóra kosningaloforð sitt hér á þinginu, bæði sem forsætisráðherra, höfuð ríkisstjórnarinnar, og formaður Framsóknarflokksins. Ég legg til að hæstv. forsætisráðherra upplýsi okkur um það hvernig hann ætlar að fylgja eftir þeim eindregna vilja sínum að ræða þetta mál hér á þingi og það jafnvel við Samfylkinguna svo við getum fengið einhverja lausn á þessu máli í staðinn fyrir að vera í einhverri störukeppni um það hvað megi og hvað megi ekki undir liðnum sérstakar umræður.