145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:47]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Málefni verðtryggingar eru á borði forsætisráðherra þegar honum hentar. En þegar hann er farinn að sjá framan í það að geta ekki staðið við loforð sín hendir hann heitu kartöflunni í fangið á fjármálaráðherranum.

Hæstv. forsætisráðherra er búinn að vera með málefni verðtryggingar í fanginu frá kosningum. Hann lét gera skýrslu. Forsætisráðuneytið gaf hana út. Hann er búinn að taka þetta mál í sínar hendur og á þess vegna að leggja í þá umræðu að koma hingað og ræða við þingmenn um verðtrygginguna. Það er ekki boðlegt, hv. þm. Birgir Ármannsson, að ráðherrar skorist undan því í nærri því ár að ræða við þingmenn um ákveðin mál sem þeir óska eftir að ræða við þá. Það eitt og sér er mjög alvarlegt og það má hrósa öðrum ráðherrum fyrir að þeir haga sér ekki þannig. Það er eingöngu einn ráðherra sem gerir það og það er forsætisráðherra Íslands.

Virðulegi forseti. Þessi ríkisstjórn lokaði leiðinni sem fyrrverandi ríkisstjórn lagði í sem var upptaka evru (Forseti hringir.) og þannig út úr verðtryggingunni. Það hefur enginn annar valkostur verið lagður á borðið og við hljótum þess vegna að kalla eftir umræðu um það.