145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:59]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hæstv. forsætisráðherra bað mig að koma hingað til að skýra afstöðu mína í þessu máli. Það er hluti af óskráðu regluverki lýðræðislegrar stjórnskipunar að þingheimur beitir framkvæmdarvaldið aðhaldi. Hæstv. forsætisráðherra sagði í viðtali í kosningabaráttunni að það væri mjög einfalt mál að afnema verðtrygginguna. Hann lét skrifa það inn í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Síðan hefur nánast ekkert gerst nema það hefur komið skýrslufargan þar sem menn hafa farið heldur lengra frá afnámi verðtryggingarinnar en nær. Þess vegna er það fullkomlega eðlilegt að við spyrjum hæstv. forsætisráðherra hvernig framkvæmd þessa verkefnis gangi. Hæstv. forsætisráðherra hefur ekki kjark til að koma hingað og ræða þetta við okkur. Ég hef fulla samúð með þingmönnum Framsóknarflokksins sem þurfa að horfa upp á sinn leiðtoga kikna í hnjánum. En ég get glatt þau með því að þau eiga eftir að upplifa margar slíkar morgunstundir vegna þess að ég tel (Forseti hringir.) að það eigi að leggja fram svona dagskrártillögu á hverjum einasta degi þangað til hæstv. forsætisráðherra hlítir þingsköpum, bítur í sig kjark og horfist í augu við sjálfan sig í spegli eigin kosningaloforða.