145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

dagskrá næsta fundar.

[11:01]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Rétt fyrir kosningar 2013 sagði hæstv. forsætisráðherra í viðtali við Fréttablaðið að það væri í sjálfu sér ekki flókið mál að afnema verðtrygginguna og það yrði gert. Í morgun var haft eftir hæstv. forsætisráðherra, hann sagði það í viðtali á útvarpsstöð og má finna fréttir um þetta meðal annars á visir.is undir fyrirsögninni „Sigmundur Davíð finnur fyrir sterkum öflum sem vinna gegn afnámi verðtryggingar“. Öflin sem hann vísar til eru meðal annars í stjórnmálaflokkum, innan Sjálfstæðisflokksins, víða í þinginu, öflin eru í verkalýðshreyfingunni, stéttabaráttunni og við vitum öll að hæstv. forsætisráðherra er mjög næmur á alla slíka hluti. Ef einhver óskilgreind öfl, þessa heims eða annars, tefja hæstv. forsætisráðherra við að uppfylla þessi kosningaloforð sín að finnst mér rétt að hann komi hér og upplýsi hvar (Forseti hringir.) fyrirstaðan er. Er hún í þinginu? Greinilega ekki hjá þeim sem flytja þessa tillögu. Er hún í Sjálfstæðisflokknum? Verkalýðshreyfingunni? (Forseti hringir.) Eða er hún einhvers staðar þar sem við hin greinum hana ekki?