145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

dagskrá næsta fundar.

[11:04]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég hef fylgst með öllum hv. stjórnarandstæðingum flytja sínar 20 ræður og er enn þá að velta því fyrir mér og reyna að átta mig á út á hvað þetta mál gengur. Þetta er eins og hv. þm. og skörulegasti stjórnarandstæðingurinn, Helgi Hjörvar, segir, hér er verið að gera Alþingi skömm til. Það er augljóslega mikið undir, svo maður noti þeirra orð.

Það kemur fram hjá hv. stjórnarandstæðingum að upphaf verðtryggingarmálsins sé hjá hæstv. forsætisráðherra, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, en verðtryggingin var sett á 1979 og þá var hæstv. forsætisráðherra fjögurra ára gamall, ef mér reiknast rétt til. Það getur tæplega verið ástæðan. Hér kemur hv. þingmaður upp og segir að hann hafi ekki fengið fullnægjandi svör og þess vegna sé farin þessi fordæmalausa leið.

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli manna á umræðunni á síðasta þingi. Það var ekki eins og við sem vorum þá í stjórnarandstöðu fengjum fullnægjandi svör. Það er langur vegur frá. En ég ætla ekki að halda langa ræðu um það.

Virðulegi forseti. (Gripið fram í.)(Forseti hringir.) Ég legg til að hv. stjórnarandstaða hætti þessu málþófi og noti aðra liði til að spyrja hæstv. forsætisráðherra.