145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

dagskrá næsta fundar.

[11:06]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Helgi Hjörvar rakti hér áðan þá harmsögu sem er að baki þessu máli, ítrekaðar tilraunir til að fá efnislega umræðu í þingsölum við hæstv. forsætisráðherra um afnám verðtryggingar, sem teygir sig aftur um tvö ár. Hv. þm. Guðmundur Steingrímsson rakti hvernig honum hefði verið mætt af tómlæti með mál sem hann vildi ræða við hæstv. forsætisráðherra. Ég skil alveg tilfinningar stjórnarþingmanna og löngun þeirra til að bregða skildi fyrir ráðherra sína. En ég vil minna stjórnarþingmenn sem eru hér að fara að ganga til atkvæða á þá frumskyldu að þeir verji rétt þingsins til að fá svör. Ef þeir ætla að standa vörð um hæstv. forsætisráðherra í þessu máli gera þeir jafnframt lítið úr öðrum hæstv. ráðherrum sem hafa mætt öllum beiðnum stjórnarandstöðunnar málefnalega, án tafa og án undanbragða allt þetta kjörtímabil. Ég er þakklátur fyrir þau viðbrögð og ég bið hv. stjórnarþingmenn (Forseti hringir.) að átta sig á að þau viðbrögð eiga að vera sjálfsögð í lýðræðisríki.