145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

dagskrá næsta fundar.

[11:08]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Í umræðu um þessa dagskrártillögu sem hér hefur verið flutt hefur komið fram að þetta er mjög sérstakt. Já, þetta er vafalaust mjög sérstakt og það er líka mjög sérstakt að hæstv. forsætisráðherra hafi ekki viljað ræða um framkvæmdaáætlun þessa máls við þingheim og svara spurningum hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur og þessu hafi verið neitað í níu mánuði. Tilurð þessarar tillögu má meðal annars rekja til umræðu nokkurra þingmanna Framsóknarflokksins í þessari viku sem hafa nú heldur betur látið í sér heyra um afnám verðtryggingar og hvað líði áætlun ríkisstjórnarinnar um að koma með frumvarp um það. Hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir talaði hér fyrir nokkrum dögum síðan um þetta mál og meðal annars það að Framsóknarflokkurinn hefði unnið sinn stóra kosningasigur út á þetta loforð. Við erum að ganga eftir því hvað líður áætlun ríkisstjórnar og það er auðvitað eðlilegt að hæstv. forsætisráðherra skýri það, en (Forseti hringir.) hv. þingmenn Framsóknarflokksins eru núna á fullu við það að kenna hæstv. fjármálaráðherra um. Hann (Forseti hringir.) er því miður ekki í salnum, kemur ekki í þessa umræðu en ég vildi gjarnan spyrja hvort það sé rétt að málið sé strand hjá honum.