145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

dagskrá næsta fundar.

[11:09]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég velti fyrir mér hvaða sirkus hér sé í gangi. Ég velti fyrir mér hvort fulltrúar minnihlutaflokkanna hér á þingi telji að þetta auki virðingu Alþingis sem mörgum hefur svo verið annt um. Ég held ég fari rétt með það að sá forsætisráðherra sem nú situr sé sá forsætisráðherra sem oftast hefur mætt í þingsal til að svara fyrirspurnum og umræðum þingmanna frá aldamótum. Ég held að það sé líka rétt hjá mér að hér eigi að fara fram umræða um Þróunarsamvinnustofnun í dag og var byrjuð í gær og tók ótrúlega langan tíma í vor, málið var tilbúið í vor til þess að klára út úr þinginu en komið í veg fyrir það af minnihlutaflokkunum — nú á enn og aftur að búa til alls konar undarlega málþófsleiki og undarlega leiki til að reyna að koma í veg fyrir að það klárist hér með eðlilegum og lýðræðislegum (Forseti hringir.) hætti í þinginu. Ég velti því fyrir mér hvort þingið (Forseti hringir.) sé á réttri leið. Ég mun að sjálfsögðu segja nei við þessari dagskrártillögu.