145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

dagskrá næsta fundar.

[11:13]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér um atkvæðagreiðsluna um þessa dagskrártillögu. Það er einfaldlega þannig varðandi beiðnir um sérstakar umræður við ráðherra að ef ráðherra fellst á þær eru þær teknar hér í þingsalnum. Nú liggur fyrir að hæstv. ráðherra hefur vísað þessu yfir á hæstv. fjármálaráðherra. Ég vonast til þess að sá sem biður um umræðuna beini beiðninni til fjármálaráðherra. Ef ég man rétt þá spurði hv. þm. Kristján L. Möller hvort fjármálaráðherra mundi taka slíka umræðu. Ég get fullvissað þingheim um það að hér eftir sem hingað til mun fjármálaráðherra taka þær sérstöku umræður sem að honum hafa beinst enda hefur hann verið duglegur við að mæta hér til þings. Ég held að enginn geti andmælt því að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, hafi sinnt þinginu vel og ég vil taka það fram að ég treysti engum betur til þess að leiða stórar umræður í þinginu og leggja það fram fyrir land og þjóð hvað er best fyrir okkur en formanni Sjálfstæðisflokksins. Það er vegna þess (Forseti hringir.) að við erum skoðanasystkin. (Forseti hringir.) Ég er í Sjálfstæðisflokknum.