145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

dagskrá næsta fundar.

[11:17]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það var dapurlegt að fylgjast með ræðu hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra áðan. Yfirleitt fetar hann veg sannleikans í hverju því sem hann segir og hefur áunnið sér virðingu þingsins og ást mína sökum þess en það má segja í þessum leiðangri hafi hann hnotið um sannleikann í hverju spori. Nú tel ég að engum í þessum sal, nema hugsanlega honum, kæmi til hugar að menn reyndu einhvers konar klæki til að koma í veg fyrir framgang þess máls sem er síðar á dagskrá í dag og hann nefndi. Ég hafna því algjörlega að þetta mál sé með einhverjum hætti tengt því. Ég vil vekja eftirtekt hins glöggskyggna hæstv. ráðherra á því að okkur sem vissulega erum andstæð því máli hefði verið í lófa lagið að biðja um tvöfalda umræðu þegar um það mál væri fjallað. Það gerðum við ekki. Hinu skal ég lofa hæstv. ráðherra, ég mun beita sömu einurð til þess að koma vitinu fyrir hann varðandi það mál eins og ég og stjórnarandstaðan gerum í þessu máli til þess (Forseti hringir.) að reyna að kenna hæstv. forsætisráðherra mannasiði og kenna honum að standa undir skyldum sínum gagnvart þingi.