145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

dagskrá næsta fundar.

[11:22]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég er verulega hugsi yfir þessari stöðu því hér er gríðarlegur hópur og stór hópur nýrra ungra þingmanna í þingflokki Framsóknarflokksins, fólk sem er að læra á Alþingi og læra stjórnmál og læra samskipti framkvæmdarvalds og löggjafarvalds í fyrsta sinn og sjá hvernig á að gera hlutina.

Virðulegi forseti. Ég hef áhyggjur af hlutverki hæstv. forsætisráðherra sem fyrirmyndar þessara ungu þingmanna, vegna þess að hæstv. forsætisráðherra eins og allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar situr í umboði Alþingis og ber að koma til Alþingis og ræða mál sem þingið óskar eftir, meira að segja minni hlutinn. Þetta skilur hver einasti ráðherra ríkisstjórnarinnar. Hver einasti ráðherra ríkisstjórnarinnar mætir hér og talar við Alþingi þegar eftir því er óskað nema einn, nema einn ráðherra ríkisstjórnarinnar sem er forsætisráðherra, (Forseti hringir.) sem er verkstjóri eða á að heita verkstjóri ríkisstjórnarinnar. Hann stendur ekki undir því, er Alþingi til skammar, (Forseti hringir.) ríkisstjórninni til skammar og Framsóknarflokknum til skammar.