145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

dagskrá næsta fundar.

[11:25]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég segi já við þessari dagskrártillögu vegna þess að ég tel ekki boðlegt okkur þingmönnum að forsætisráðherra hunsi beiðnir okkar um umræðu um jafn mikilvæg mál og þetta. Þegar menn lofa jafn stórum og miklum hlutum eins og að afnema verðtryggingu þá er verið að gefa loforð til allra landsmanna sem eru með verðtryggð lán og finna fyrir þeim á hverjum einasta degi. Þau eru þungur baggi á hverju heimili. Ekki nóg með það heldur hefur ríkisstjórnin sent þau skilaboð til þessara sömu heimila og var lofað að verðtrygging yrði afnumin að það eigi að loka einni færri leið sem er upptaka evru og afnema þannig verðtryggingu og koma okkur inn í lægri fjármagnskostnað. Það er ekkert gefið upp eða sýnt á spilin um það hvað eigi þá að koma í staðinn, ekki neitt. (Forseti hringir.) Það er umræða um það sem við erum að kalla hér eftir, (Forseti hringir.) forsætisráðherra skuldar fólki svör um það hvernig hann ætlar að afnema verðtrygginguna ef ekki með upptöku evru.