145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

dagskrá næsta fundar.

[11:36]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er grundvallarregla í lýðræðisríki að stjórnmálaflokkar leggja fram stefnu sína, fá fylgi í kosningum út á hana og þurfa svo að svara fyrir hana. Hæstv. forsætisráðherra hefur, eins og hér hefur komið fram, forðast með skipulegum hætti í tvö ár að svara fyrir loforð sem hann gaf fyrir síðustu kosningar, loforð sem fleytti honum í stólinn sem hann situr í. Og nú gerist það að þingmenn Sjálfstæðisflokksins standa um hann vörð og koma honum undan því að svara þjóðinni til um efndir á þessu stóra kosningaloforði, hafandi sjálfir ákveðið að efna það ekki. Ekkert sýnir betur hráskinnaleikinn sem ríkir hjá þessari ríkisstjórn og ekkert sýnir betur að sjálfstæðismönnum er ekkert heilagt þegar kemur að því að ná völdum og halda völdum fyrir sig og vini sína. Þá skiptir hvorki máli heiður né sómi.