145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

dagskrá næsta fundar.

[11:43]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég er ekki endilega sammála síðasta ræðumanni um að fyrrverandi forsætisráðherra sé dæmi um hvernig eigi að stýra landinu. En ég vil þó benda á, vegna þess að hér hefur verið vísað í þingsköp, að samkvæmt 60. gr. þingskapalaga er hægt að biðja um sérstaka umræðu en samkvæmt venju verður að beina þeirri beiðni til þess ráðherra sem fer með málaflokkinn sem rætt er um. Það á alveg jafnt við um okkur í meiri hlutanum og þingmenn stjórnarandstöðunnar. Ég gæti óskað eftir umræðu við hæstv. innanríkisráðherra um utanríkismál, það er algjörlega af sama meiði og það sem mér heyrist umræðan núna snúast um, en ég mundi fá neitun vegna þess að málaflokkurinn heyrir að sjálfsögðu undir utanríkisráðherra. Þess vegna þýðir ekkert að berja hausnum við steininn og segja að hér verði komið dag eftir dag til að biðja um þetta. Það er eingöngu til marks um það sem hv. þm. Birgir Ármannsson nefndi svo ágætlega hér áðan, það er ekkert annað en leikrit. Það er verið að búa sér til (Forseti hringir.) einhverja stöðu og það er hluti af málþófi, virðulegi forseti. Þess vegna segi ég að sjálfsögðu nei við þessari dagskrártillögu.